
Um þennan viðburð
Barnamenningarhátíð I Gersemar Disney
Borgarbókasafnið Gerðubergi, föstudaginn 11. apríl kl. 12:15-13:00
Borgarbókasafnið Spönginni, laugardaginn 12. apríl kl. 13:15-14:00
Dægurflugur í hádeginu verða að þessu sinni helgaðar vinsælum perlum frá Disney kvikmyndum og söngleikjum. Ingrid Örk Kjartansdóttir mun syngja bæði sígild lög og ný úr smiðju Disney, ásamt Sunnu Gunnlaugsdóttur á píanó og Leifi Gunnarssyni á kontrabassa. Tónleikarnir eru hluti af Barnamenningarhátíð og eru því frábært tækifæri fyrir fjölskyldur að njóta saman.
Skoðið yfirlit yfir viðburði Borgarbókasafnsins á Barnamenningarhátíð hér.
Ingrid Örk hóf tónlistarnám 6 ára gömul. Alla grunnskólagönguna tók hún þátt í lúðrasveitastarfi og popphljómsveitum meðfram píanónámi sem var hennar aðalgrein. Ingrid Örk lauk framhaldsprófi í klassískum píanóleik frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, lauk kennaradeild FÍH og stundaði jazzpíanónám í sama skóla. Auk þess að hafa sótt ýmis námskeið hefur Ingrid sótt einkatíma í söng hjá Britt Hein í Kaupmannahöfn og kemur reglulega fram sem jazzsöngkona. Árið 2014 lauk Ingrid bachelornámi í tónlistarfræðum frá Kaupmannahafnarháskóla þar sem lokaritgerð hennar fjallaði um íslenska dægurtónlistarsenu á árunum eftir efnahagshrunið. Ingrid lauk meistaranámi í menningarfræði frá Háskóla Íslands árið 2022. Námið nýtti hún til að skoða tónlist frá hinum ýmsu sjónarhornum menningarfræðinnar; popptónlist, klassíska tónlist og jazztónlist.
Sjá nánar um Sunnu Gunnlaugsdóttur
Sjá nánar um Leif Gunnarsson
Dægurflugur í hádeginu er tónleikaröð sem Borgarbókasafnið stendur fyrir í samstarfi við Leif Gunnarsson kontrabassaleikara sem er jafnframt listrænn stjórnandi. Þar kemur fram margt af okkar helsta tónlistarfólki og á tónleikunum gefst Reykvíkingum tækifæri til að koma saman, hitta félaga, njóta tónlistar og spjalla við tónlistarfólkið eftir tónleika.
Markmiðið er fyrst og fremst að færa metnaðarfulla tónlist út í hverfi borgarinnar þannig að fólk geti notið hennar í eigin nærumhverfi og á eigin forsendum.
Frítt er inn á tónleikana og eru öll hjartanlega velkomin.
Nánari upplýsingar veita:
Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri viðburða
holmfridur.olafsdottir@reykjavik.is I 868 1851
Leifur Gunnarsson, listrænn stjórnandi
leifurgunnarsson@gmail.com | 868 9048