Myndhöfundur: Ari H. G. Yates
Myndhöfundur: Ari H. G. Yates

Um þennan viðburð

Tími
10:30 - 13:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir

Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir | ALLSKONAR ÖÐRUVÍSI

Laugardagur 5. mars 2022


ALLSKONAR ÖÐRUVÍSI
Skáldskapur í margbreytilegum heimi

Árleg ráðstefna um skáldskap fyrir börn og unglinga í Gerðubergi. Gestum gefst tækifæri til að hlýða á fyrirlesara og taka þátt í umræðum um hlutverk og stöðu bókmennta fyrir börn og ungmenni í dag.

Í ár beinum við sjónum okkar að því hvernig margbreytileiki birtist í barnabókmenntum. Um mikilvægi þess að tilheyra og eiga heima í skáldskap. Persónur, börn og unglingar, fjölskyldur, kyn, kynhneigð, efnahagur, skynjun, þjóðerni, tungumál, trú, upplifun á veruleikanum er allskonar og það er gott að vera öðruvísi.

Fjórir rit- og myndhöfundar halda erindi um sýn sína á barnabókmenntir fyrr og nú. Það eru þau Þórunn Rakel Gylfadóttir, handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021, Atla Hrafney, myndasöguhöfundur og formaður Íslenska myndsögusamfélagsins, Sverrir Norland, rithöfundur, þýðandi, bókmenntagagnrýnandi og útgefandi barnabóka, Þórdís Gísladóttir, rithöfundur og þýðandi. Þau munu fjalla um það hvernig er að skrifa og teikna fyrir börn og ungmenni í dag. Um fjölbreytta og jafnvel jaðarsetta hópa, um hugarflug og frelsi til þess að vera og tilheyra í myndasögum og margbreytilegum skáldskap, að fá að vera aðalpersónan, að tilheyra og geta speglað sig og vaxið í raunverulegum ævintýrum. Fundarstjóri er rithöfundurinn Hilmar Örn Óskarsson.

Fjölbreytileiki heillar  - hvað getum við lært af barnabókmenntum?

DAGSKRÁ:

Kl. 10.30
Ráðstefnan sett.

Fundarstjóri: Hilmar Örn Óskarsson, rithöfundur

Kl. 10.40
Höfundur að eigin lífi eða aukapersóna í lífi annarra?

Þórunn Rakel Gylfadóttir, rithöfundur sjúkraþjálfari og kennari. Handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021 fyrir bók sína Akam, ég og Annika

Þroskasaga Hrafnhildar Unnsteinsdóttur, aðalpersónu bókarinnar Akam, ég og Annika og höfundarins Þórunnar Rakelar Gylfadóttur. Ef enginn er eins, eru þá allir öðruvísi og er þá kannski enginn venjulegur? Og hefur tregðulögmálið áhrif á fólk á öllum aldri?

Kl. 11.05
Fjölbreytileiki og myndasögur

Atla Hrafney, myndasöguhöfundur og formaður Íslenska myndasögusamfélagsins

Allir vilja geta sagt sína sögu, en það hafa ekki allir aðgang til þess að gera það. Atla Hrafney talar um hvernig miðillinn getur gefið margskonar jaðarsettum hópum þann aðgang.

Kl. 11.30
Matarhlé

Kl. 12.00
Þegar ég verð stór ætla ég að halda áfram að vera lítill

Sverrir Norland, rithöfundur, þýðandi og útgefandi

Sverrir talar um eftirlætisbarnabækurnar sínar, og eftirlætisbarnabókahöfunda sína, og frelsið sem svífur yfir vötnum í slíkum bókmenntum, þar sem oft er eins og allt megi, allt geti gerst. Hvað er öðruvísi í hugarflugi barnabókahöfunda, og barna, og hvað getum við, hin fullorðnu, lært af þeirri heimssýn?

Kl. 12.25
Allskonar bækur fyrir allskonar fólk – að skrifa fyrir nútímabörn á ýmsum aldri

Þórdís Gísladóttir, rithöfundur og þýðandi

Í fyrirlestrinum verður rætt um barnabókina sem bókmenntategund í sögulegu samhengi, fyrir hvaða fólk slíkar bókmenntir voru og eru skrifaðar og sjónum verður beint að því hvernig höfundar barnabóka nútímans blanda saman malbiksgráum raunveruleika og töfrum gæddum ævintýrum svo úr verða bókmenntir sem eru samtímis bæði speglar og gluggar.

Kl. 12.50
Samantekt og spjall

Ráðstefnan er samstarfsverkefni Félags fagfólks á skólasöfnum, IBBY, SFS, Síung, Upplýsingar og Borgarbókasafnsins.
Ari H. G. Yates, teiknaði og hannaði veggspjald ráðstefnunnar.

Sjá viðburð á Facebook.

Nánari upplýsingar:
Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri | bókmenntaviðburðir
soffia.bjarnadottir@reykjavik.is