Um þennan viðburð
Ljóðakaffi til minningar um Vilborgu Dagbjartsdóttur
Steinarnir brosa líka
Vilborg Dagbjartsdóttir skáld lést síðastliðið ár en hún fæddist 18. júlí 1930. Hún var með fyrstu konum hér á landi að skrifa á frjálsu og flæðandi ljóðmáli. Fyrsta ljóðabókin hennar Laufið á trjánum kom út 1960 en þá var fáheyrt að konur skrifuðu atómljóð. Vilborg var ein af frumkvöðlum að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og tók virkan þátt í jafnréttisbaráttu kvenna. Bera ljóðin þess merki en þau fjalla oftar en ekki um reynsluheim kvenna, með beinum eða óbeinum hætti. Meðfram ritstörfum starfaði Vilborg sem kennari við Austurbæjarskóla í 43 ár og samdi sögur og þýddi efni fyrir börn.
Við viljum á þessu Ljóðakaffi heiðra Vilborgu með umfjöllun og ljóðalestri.
Gerður Kristný rithöfundar heldur erindi um skáldið og konuna en hún þekkir vel til Vilborgar og var meðal annars með útvarpsþáttinn „Blessað veri ljósið“ síðustu jól sem fjallaði um hana. Það og má segja að þær eigi það sameiginlegt að hafa bæði sinnt ljóðum og börnum af alúð á sínum ferli.
Gerður Kristný hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar bæði fyrir ljóð og barnabækur. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabálkinn Blóðhófni og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sama verk. Einnig fékk hún Vestnorrænu barnabókaverðlauninn fyrir barnabókina Garðurinn.
Ólöf Sverrisdóttir leikkona og Soffía Bjarnadóttir rithöfundur lesa upp nokkur ljóð eftir Vilborgu en einnig geta gestir flutt sín uppáhalds ljóð eftir skáldkonuna. Í lokin verða umræður og geta allir sem koma á viðburðinn spurt og spjallað.
Gestir geta fengið sér kaffi og með því á kaffihúsinu í Gerðubergi áður en dagskrá hefst.
Öll velkomin, ókeypis aðgangur.
Ljósmyndin af Vilborgu er tekin af Ara Kárasyni og er í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur.
Ljósmynd af Gerði Krisnýju er tekin af Kristni Ingvarssyni.
Nánari upplýsingar veitir:
Ólöf Sverrisdóttir, verkefnastjóri
olof.sverrisdottir@reykjavik.is