Meginþáttur þessa verks er jarðfræðikortið sem er í vasa aftast í skýrslunni. Það er hluti af gögnum sem munu liggja til grundvallar mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar virkjunar Þjórsár við Núp í Gnúpverjahreppi. Kortið nær einnig yfir hugsanleg virkjana svæði við Búðafoss og Hestafoss. Það er að hluta til byggt á eldri gögnum en einnig hafa verið gerðar viðbótarathuganir til að fylla upp í og samræma eldri upplýsingar. Þjórsárhraunið mikla er fyrirferðamesta jarðmyndunin á kortblaðinu. Setlög frá síðjökultíma eru sýnd. Þau eru af ýmsum gerðum, jökulurð sjávarset, straumvatnaset og forsandur. Ung hlýskeiðshraun setja svip á jarðfræðina. Þeim er skipt í tvo hópa þ.e. hlýskeiðshraun í Hreppum og í Holtum. Jarðlög Hreppamyndunar eru elst. Þeim er skipt niður í þrjár syrpur, Skarðsfjallssyrpu, Núpssyrpu og Geldingaholtssyrpu. Fyrrnefndu syrpurnar eru í beinu framhaldi hvor af annarri en Geldingaholtssyrpan er í óljósari tengslum við þær og einkennist af innskotum sem tengjast megineldstöð Stóru-Laxár.