Gróa Sigríður Einarsdóttir
Á safninu má finna fjölda bóka og tímarita um saumaskap og aðrar hannyrðir.

„Skemmtilegra að sauma á safninu en heima“

Gróa Sigríður Einarsdóttir hefur verið fastagestur á Borgarbókasafninu Árbæ um árabil. Árbæinn segir hún vera eins og lítið þorp í borg þar sem íbúarnir rekast reglulega á hvern annan, meðal annars í bakaríinu, sundlauginni, búðinni og á bókasafninu. Þannig hafi stór hópur, rúmlega 20 kvenna sem kynntist í hverfinu, ákveðið að stofna prjónaklúbb fyrir 11 árum og hefur síðan þá hist vikulega á safninu.

 „Við kjöftum, slúðrum og hlæjum saman, það er oftast mjög gaman hjá okkur, en ef einhverri finnst umræðuefnið leiðinlegt erum við óhræddar við að biðja um að eitthvað annað sé rætt. Þá leggur oft ein úr hópnum gátur fyrir okkur og önnur les upp ljóð svo stundirnar eru afar ánægjulegar og fjölbreyttar.“  

Starfsfólk bókasafnsins hellir upp á kaffi fyrir vinkonurnar en þær taka með sér góðgæti á borðið. Hópurinn fer árlega saman í vorferð innanlands sem þær skiptast á að skipuleggja en einnig hafa þær farið í margar utanlandsferðir á vegum Orlofsnefndar húsmæðra, meðal annars til Ítalíu, Englands og Þýskalands. Ferðirnar fjármagnar Gróa með sölu á lunda -, hesta - og kindahúfum sem hún prjónar, í prjónaklúbbnum og víðar, svo segja má að hringnum sé þannig lokað. Að sögn Gróu er bókasafnið algjör forsenda þess að hópurinn hefur hist vikulega svona lengi og sé orðinn svona þéttur og náinn, enda séu fáar sem geti boðið svo mörgum heim með góðu móti.  

Gróa Sigríður Einarsdóttir


 
Buxur úr ullarkápu

Þegar Gróa mætir í prjónaklúbbinn á þriðjudögum nýtir hún gjarnan í leiðinni saumavélarnar sem standa gestum bókasafnsins til boða þeim að kostnaðarlausu en í Árbæ eru tvær venjulegar vélar og ein overlockvél sem hafa fengið viðurnefnin Anna, Hanna og Jóhanna. Gróa segir mjög gott að hafa aðgang að overlock vélinni enda slíkar vélar dýrar og ekki mörg sem eigi þannig heima hjá sér.

„Stundum klippi ég niður gömul handklæði sem gott er að nýta í tuskur og er þá frábært að geta rennt þeim í gegnum hana. Einnig hef ég fest brautarborða á gardínur og stytt buxur í saumavélunum.“

Þótt Gróa nýti sér saumavélarnar á bókasafninu á hún sjálf hina fínustu vél, Elna Supermatic, sem hún keypti 1971 þegar hún eignaðist elsta son sinn og saumaði þá meðal annars sængurver, föt og náttföt handa honum.

„Ég kem úr stórum systkinahópi og mamma var alltaf að sauma á okkur svo ég er alin upp við það að mikið var heimasaumað, allt var nýtt og engu hent.“

Minnist Gróa þess að sex ára gömul hafi móðir hennar saumað á hana buxur úr gamalli ullarkápu en fóðra þurfti buxurnar því hana klæjaði svo mikið undan efninu. Var flíkin þá bæði orðin afar heit og stíf.

„Saumavélin mín átti lengi vel sinn stað uppi á borði en ég saumaði mikið á mig sjálfa og systur mínar hér áður fyrr. Þegar hún var farin að rykfalla vegna minnkandi notkunar fór hún inn í skáp sem varð til þess að hún var enn minna notuð. Það er ekki svo mikið mál að sækja hana í skápinn en mér finnst bara svo gaman að nýta aðstöðuna á safninu að ég kýs það oft frekar, slá nokkrar flugur í einu höggi, fara út úr húsi, hitta fólk og sauma.“ 

Segir hún fleiri vinkonur úr prjónahópnum gera slíkt hið sama.  


Pavarotti og Trúbrot á fóninum 

Prjónaklúbburinn tekur sér frí á sumrin en Gróa lætur sér ekki leiðast á meðan, fer meðal annars í sund og golf og er dugleg að fá safnkost lánaðan heim, bæði bækur og vínylplötur.

„Ég les mikið en þó ekki skáldsögur, ég hef ekki gaman af bókum nema þær séu sannar. Það er til dæmis talsvert búið að skrifa um forfeður mína sem mér finnst gaman að fræðast um. Ég hef líka gaman af fjölbreyttri tónlist, til dæmis Pavarotti og Trúbrot og finnst frábært að geta tekið vínylplötur á bókasafninu til að hlusta á og ákveða hvort ég vilji kaupa þær.“

segir Gróa að lokum áður en hún heldur út í íslenska sumarið.  

Þau sem vantar stað fyrir prjónaklúbb eða aðrar samverustundir er bent á að hafa samband við afgreiðsluna á sínu safni eða senda fyrirspurn á borgarbokasafn@borgarbokasafn.is   

 

UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 14:59