Orðalisti | Hugtök um kynþáttafordóma

Þegar við ræðum fyrirbæri eins og fordóma, getur verið erfitt að skorta orð og þurfa sífellt að reiða sig á erlend hugtök í umræðunni. Hér fyrir neðan má finna gagnlegan orðalista þar sem nokkur hugtök sem birtast oft í umræðu um kynþáttafordóma eru útskýrð. Þessi listi var settur saman í samvinnu við Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðing og fræðsluaðila um fordóma.

HÉR má sjá lista af barnabókum sem vinna gegn kynþáttafordómum.
 

Kynþáttur
Kynþáttur er félagslega tilbúið fyrirbæri, en ekki líffræðileg staðreynd. Vegna þess að kynþættir voru skilgreindir  og settir fram sem vísindlegar fullyrðingar á sínum tíma, heldur margt fólk enn í dag að raunveruleg vísindi séu að baki kynþáttum. Svo er ekki. Lýsingar á kynþáttum hafa breyst í gegnum tíðina. Þótt að kynþættir séu félagslegt fyrirbæri, en ekki líffræðilegt, hafa kynþáttaflokkanir enn áhrif á líf fólks í dag. 

Andrasisti
Það er ekki nóg að vera ekki rasisti, það þarf að vera and-rasisti! Einhver sem er andrasisti eða stundar andrasisma er einstaklingur sem styður andrasískar stefnur með því að styðja eða segja frá andrasískum hugmyndum. Þetta getur falið í sér að trúa því og segja frá því að ólíkir kynþáttahópar séu jafnir og þurfi ekki að þróast til að ná jafningjagrundvelli. Þetta felur einnig í sér að styðja stefnur sem draga úr kynþáttalegu óréttlæti.

Hvít forréttindi
Hvít forréttindi vísa í ótvírætt samansafn af ávinningum, kröfum, réttindum og tækifærum sem fólk hefur einungis áunnið sér vegna þess að það er hvítt. Fólk sem upplifir hvít forréttindi er yfirleitt ómeðvitað um að það hafi þau og áttar sig því sjaldnast á óréttlætinu sem blasir við öðrum.

Bandamanneskja
Einhver sem hefur það að markmiði og leggur sig fram við að þekkja sín eigin forréttindi (sem byggjast á kyni, stöðu, kynþætti, kynhneigð o.s.frv.) og vinnur með undirokuðum hópum í baráttunni fyrir réttlæti.

Litblinda
Að tala um litblindu í þessu samhengi (eða litahundsun) er að segjast ekki sjá kynþætti, til að sýnast ekki vera rasisti eða með kynþáttafordóma. Þá er oft sagt að til þess að minnka mismunun þurfi einungis að koma eins fram við allt fólk, án þess að líta til kynþáttar, menningar eða þjóðernisuppruna. Litblinda ýtir undir og viðheldur mismunun með því að hundsa hvernig kynþættir móta líf fólks og kynþáttafordómar skapa ójöfn tækifæri. Með því að leyfa kerfisbundnu óréttlæti að viðgangast, hefur litblinda orðið hinn „nýi rasismi“. Litblinda tekur líka ekki til greina öll þau menningarlegu einkenni sem fólk metur og á skilið að séu viðurkennd og fagnað.

Afnýlenduvæðing
Afnýlenduvæðing er skilgreind sem virk andspyrna gegn nýlenduveldunum og tilfærsla á yfirvaldi í átt til sjálfstæðis nýlenduþegna í pólitískum, efnahagslegum, menntunarlegum, menningarlegum og andlegum málum. Afnýlenduvæðing á einnig við um að virkja kraftinn sem á uppruna sinn í eigin menningu innfæddra nýlenduþegna. Þetta ferli á sér stað í stjórnmálum en á einnig við um persónulegt og samfélagslegt niðurbrot á þeirri kúgun sem nýlenduveldin beittu þegna sína á andlegan og menningarlegan hátt, sem og í ofnotkun á landi þeirra og innrætingu í menntun þeirra.

Öráreiti
Þær hversdagslegu yrtu, óyrtu og óáþreifanlegu lítilsvirðingar, móðganir, hundsanir eða dónaskapur sem gefa til kynna fjandsamlegt, niðrandi eða neikvæð skilaboð til einstaklinga einungis vegna þess að þau tilheyra jaðarsettum hóp, hvort sem það er viljandi eða óviljandi gert.

Menningarnám
Að taka upp, eigna sér eða nýta menningarþætti (eða kynþætti) annarra – þar á meðal tákn, list, tungumál, siði o.s.frv. – til eigin nota, hagnaðar. skemmtunar eða framdráttar án skilnings, viðurkenningar eða virðingar fyrir gildi þess í upprunalegri menningu. Menningarnám á sér oft stað án nokkurrar umhugsunar um stöðu þess hóps sem menningin vísar í innan samfélagsins. Oft er um að ræða hópa sem upplifa fordóma og jaðarsetningu í samfélaginu, gagngert fyrir það eitt að tilheyra þeirri menningu. Menningarnám á sér grunn í þeirri hugmynd að ríkjandi (þ.e. hvít) menning hafi rétt til að tileinka sér aðra menningarþætti án þekkingar á þeim. 

Menningarfordómar
Menningarfordómar, stundum kallað nýrasismi, er hugtak sem hefur verið notað til að útskýra fordóma og mismunun sem byggir á menningarlegum mismun milli þjóðernis- eða kynþáttahópa. Þetta felur í sér þá hugmynd að sum menning sé öðrum æðri og að ýmsir menningarheimar séu í grundvallaratriðum ósamrýmanlegar og ættu ekki að vera til í sama samfélagi eða ríki. Þá eru óhaldbærir eiginleikar eins og menning, tungumál og trúarbrögð sett fram sem útskýring á “eðli fólks” og réttlæting fyrir fordómum í þeirra garð. Í þessu eru þeir frábrugðnir kynþáttafordómum, sem vísa í fordóma og mismununar sem byggir á kynþáttalegri skilgreingu fólks. Þessir fordómar eru oft nátengdir kynþáttafordómum því oft er ákveðið útlit tengt við ákveðna menningu, en geta líka verið óháð útliti fólks.

Fleiri hugtök og skilgreiningar má lesa um HÉR (á ensku).