Lesandinn | Luciano Dutra
Luciano Dutra er þýðandi og útgefandi, fæddur og uppalinn í Brasilíu. Hann flutti fyrst til Íslands árið 2002 og bjó hér til ársins 2008 með það í huga að læra íslensku og starfa við bókmenntaþýðingar. Luciano er með BA-gráðu í íslensku sem annað mál og hefur lagt stund á MA-nám í þýðingarfræðum. Hann hefur nú verið búsettur á Íslandi samfleytt síðan 2013 og stofnað eigin útgáfu, Sagarana editora forlag, sem hefur það að markmiði að gefa út bókmenntir á bæði portúgölsku og íslensku. Luciano hefur meðal annars þýtt verk eftir Sjón, Einar Már Guðmundsson, Hugleik Dagsson og fleiri höfunda útgefin í São Paulo í Brasilíu. Þýðing hans á Rökkurbýsnir/Pela boca da baleia eftir Sjón var tilnefnd, í flokki þýðinga, til Jabuti Award, sem eru þekkt bókmenntaverðlaun í Brasilíu. Þá hefur Luciano jafnframt verið ötull við þýðingar á stökum ljóðum norrænna skálda yfir á portúgölsku og birtir ljóðaþýðingar sínar á Facebook síðunni: Um poema nórdico ao dia.
Draculitz – hinn sænski Drakúla greifi
Bókin sem ég er að lesa tengist Íslandi að einhverju leyti. Hún heitir Mörkrets makter, er sænsk þýðing á Drakúla eftir Bram Stoker og birtist sem framhaldssaga í dagblaðinu Dagen í Stokkhólmi frá júní árið 1899 til febrúar árið 1900. Þýðandinn, sem er nefndur með skammstöfun A—e, er óþekktur og ekki er vitað hvort hann/hún hafi fengið í hendur eldra uppkast af skáldsögu Stokers, sem kom út 1897 í Bretlandi hjá Archibald Constable and Company. Þessi sænska þýðing var síðan endurbirt í tímaritinu Aftonbladets Halfvecko Upplagan, í verulega styttri útgáfu.
Íslenska þýðingin Makt myrkranna, í þýðingu Valdimars Ásmundssonar, er þýðing úr þessari sænsku bók og birtist fyrst sem framhaldssaga í tímaritinu Fjallkonan árið 1900, en var útgefin á bók 1901.
Mörkrets makter býður upp á margar senur sem hafa ekki ratað inn í hina sígildu sögu Drakúla sem flestir þekkja, enda er hún ein frægasta skáldsaga sinnar tegundar. Draculitz greifi, eins og aðalpersónan heitir í sænsku útgáfunni, er nokkurs konar prótó-nasisti sem predikar af mikilli grimmd að hlutverk hinna veiku í samfélaginu sé einungis að vera fallbyssufóður í átökum hinna sterku sem keppast sín á milli við að ná völdum og yfirhönd í veröldinni.
Poderes das trevas
Ég hef verið önnum kafinn við að lúslesa Mörkrets magter svo mánuðum skiptir og þýða hana yfir á portúgölsku, en brasilíska þýðingin, Poderes das trevas, kemur út á þessu eða næsta ári undir merkjum Sagarana forlags, Ex Machina forlags og Sebo Clepsidra forlags í São Paulo.