Kristín Steinsdóttir hefur alltaf lesið mikið
Kristín Steinsdóttir hefur alltaf lesið mikið

Lesandinn | Kristín Steinsdóttir

Kristín Steinsdóttir, rithöfundur, var innt eftir bókalista: Bækur sem hafa veitt innblástur. Hún rifjaði upp hvað hefur verið í uppáhaldi, allt frá því í æsku: 

Sem barn las ég mjög mikið, las allt sem kjafti kom! Lá til dæmis veik heilt sumar. Þá var ég 11 ára og las Jón Trausta spjaldanna milli. Man hvað ég grét yfir Höllu og heiðarbýlinu . . . Ævintýrabækur Enid Blyton voru líka vinsælar. Annars las ég bæði stelpubækur en ekkert síður strákabækur. Þessu var oftast skipt upp á þann hátt. Tarsan var líka ótrúlega spennandi. Við notuðum hann sem framhaldssögu. Líka Lína Langsokkur. Öddubækurnar las ég líka, bækur Ragnheiðar Jónsdóttur og Hjaltabækurnar.

Ég var líka mjög ung þegar ég byrjaði að lesa Halldór Kiljan Laxness. Atómstöðin var fyrsta bókin. Þar var maður að spila á saltfisk! Ég vann mikið í saltfiski, strax sem barn – en spilaði aldrei á hann! Og svo fékk HKL líka að skrifa kolvitlausa íslensku, en ég þurfti að læra reglur og skrifa rétt. Ég þrusaðist í gegnum nokkrar bækur en lærði ekki að meta þennan speking fyrr en löngu seinna. Las á hinn bóginn Þórberg Þórðarson, kannski af því að hann var frændi minn! Ég sneri mér sem sagt fljótlega að bókum fyrir fullorðna:

Guðrún frá Lundi var í miklu uppáhaldi. Mamma fékk alltaf bækurnar hennar lánaðar hjá sömu vinkonunni og svo var sagan rædd fram og aftur í eldhúsinu með kaffi og sígó. Ég fór snemma að hlusta á þær umræður og skjóta inn í.

Gunnar Gunnarsson var til á heimilinu á dönsku og þegar ég varð eldri las ég hann mikið.

Ég bjó lengi í Þýskalandi og varð þá mikill Brechtisti. Lög Kurt Weill og Lotte Lenya áttu sinn þátt í því.

HKL var alltaf keyptur þegar hann kom út. Foreldrar mínir voru mjög hrifnir af honum og lásu hann sem framhaldssögu í rúminu á kvöldin. Mamma hélt því þó fram þegar á leið að hann væri ekki eins góður og hann var og fyrir Nóbelsverðlaunin. Mikil umræða var um það í eldhúsinu! Sjálf á ég margar þessa bóka og held mest upp á Heimsljós en Salka Valka og Sjálfstætt fólk koma líka sterkar inn.

Ljóðin hennar Ingibjargar Haralds fylgja mér alltaf og það gera Jóhannes úr Kötlum og Þorsteinn Valdimarsson líka.

Benedikt Gröndal er á sveimi í Dægradvöl.

Á náttborðinu mínu núna eru meðal annars:

Dýralíf eftir Auði Övu.

Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson.

Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson 

Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur.

Ég er að reyna að vinna mig í gegnum jólabókastaflann. Mér finnst mjög erfit að gera upp á milli höfunda og svona spurningar fá mig til að snúast í hringi. Allt of margir lenda úti í kuldanum og ég er ekki fyrr búin að velja einn en annar höfundur verður hávær og heimtar að vera með ...

 

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:47
Materials