Lesandinn er Hrafnhildur Þórhallsdóttir skáld, kennari og þýðandi.

Lesandinn | Hrafnhildur Þórhallsdóttir

Hrafnhildur Þórhallsdóttir lærði bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands og starfar sem framhaldsskólakennari. Árið 2014 sendi hún frá sér ljóðasöguna Saltvatnaskil og ári síðar ljóðverkið Ég erfði dimman skóg en sú bók var samstarfsverkefni sjö skáldkvenna. Hrafnhildur hefur einnig unnið að þýðingum, meðal annars fyrir ritröðina Smásögur heimsins.


Ef ég hefði á heimili mínu lítinn glerkassa með áletruninni Brjótið glerið í andlegri neyð væri þar að öllum líkindum að finna bók eftir Braga Ólafsson. Þegar mér finnst ég hafa tapað húmornum í lífinu er Bragi alltaf örugg höfn. Mér væri nánast sama hverja af bókum hans glerið myndi geyma, það er stíllinn og setningaskipanin sem nær mér í hverri einustu bók auk persónusköpunarinnar. Fáir skrifa jafn frábærlega um vandræðalegt fólk eins og Bragi. 


Rachel Cusk og Anais Barbeau-Lavalette

Annars les ég helst bandarískar og breskar samtímabókmenntir og áhugaverðar þýðingar. Nýlega lauk ég við Kona á flótta eftir Anais Barbeau-Lavalette í íslenskri þýðingu Jóhönnu Bjarkar Guðjónsdóttur. Í bókinni rekur höfundur lífshlaup ömmu sinnar, listakonunnar Suzanne Meloche, konu sem þráði frelsi listamannsins og hafnaði viðteknum hlutverkum kvenna. Stíllinn er bæði hrár og blússandi ljóðrænn en athyglisverðast fannst mér hvernig höfundur nær að nálgast viðfangsefnið, ömmu sína sem hún þekkti takmarkað og margir í hennar sporum gætu auðveldlega borið nokkurn kala til. Hér skín hins vegar í gegn samkennd og löngun til að skilja hvers vegna fólk taki ákvarðanir sem flestum þykja óskiljanlegar.

Rachel Cusk er höfundur sem ég er búin að vera með á heilanum síðastliðið ár og sjálfsagt er ég að gera flesta í kringum mig brjálaða með endalausu tali um að þeir verði endilega að kynna sér hana. Í sumar las ég nýjustu skáldsögu hennar Second Place en sú er tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár og ég verð að segja að ég hef ekkert við þá ákvörðun dómnefndar að athuga. Skáldsögur Cusk eru stuttar og hnitmiðaðar, stíllinn allt að því klínískur og myndmálið sterkt. Þríleikurinn hennar Outline, Transit, Kudos þótti mér frábær en í þeim bókum er sögumaðurinn í raun aðeins hlustunarpípa milli lesandans og annarra persóna. Mæli með. Umfjöllunarefnið í Second Place er aftur á móti tælingarmáttur listarinnar og atburðarrásin ekki alltaf þægileg en ég í það minnsta gat ekki lagt hana frá mér. Ég er svo nýbyrjuð á einni af hennar fyrstu skáldsögum Saving Agnes en er of stutt á veg komin til að geta sagt eitthvað af viti um hana þó mér virðist hér eitthvað verið að fjalla um skömm.


Rússnesk dramatík á sófaborðinu

Talandi um skömm. Hér á sófaborðinu hvílir Anna Karenina. Ég er búin að vera að reyna að ljúka við þessa bók í átta ár. Það hefur ekkert með lengdina að gera, ég hef ekkert á móti lengd. Mér leiðist bara svo agalega dramatíkin í þessu rússneska fólki. Og allar þessar bollaleggingar um rússneskan landbúnað. Maður má auðvitað ekki tala svona um Tolstoy en ég er aðeins búin að vera að opna mig með þetta við fólk og nú legg ég þetta bara hér. Og skammast mín.


Eftirlestrardepurð

Aðdáendur langra bóka mega alls ekki hafa af sér þá nautn að lesa þríleik Hilary Mantel um Thomas Cromwell, Wolf Hall / Bring Up the Bodies og The Mirror and the Light. Ég þjáist enn af töluverðri eftirlestrardepurð (post reading depression) yfir því að vera búin með þær og að ég muni aldrei upplifa aftur að lesa þær í fyrsta skipti. Thomas Cromwell varð mér mjög nákominn meðan á lestrinum stóð. Og nú er hann horfinn. Það skiptir mig engu þó einhverjir vilji meina að hann hafi ekki verið neitt sérstaklega góð manneskja í lifanda lífi og að þetta bras þeirra Hinriks VIII hafi verið út fyrir allan þjófabálk. Ég sakna hans samt. Þannig að nú hef ég varað fólk við. Þið hugsið þetta.

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:52
Materials