Ásgeir H. Ingólfsson

Lesandinn | Ásgeir H. Ingólfsson

Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður, skáld og þýðandi. Hann skrifar um menningu á Menningarsmyglið og einnig reglulega í Stundina og Lestina á Rás 1. Þá hefur hann gefið út ljóðabækurnar Grimm ævintýri og Framtíðina. Ásgeir var umsjónarmaður og skáld í þáttaröðinni Ljóðamála á almannafæri, en þar las hann m.a. ljóð úr þriðju bók sinni sem er væntanleg. Ásgeir lærði bókmenntafræði og blaðamennsku í Háskóla Íslands og Karlsháskóla í Prag og ritlist í Háskólanum í Southampton. Hann er búsettur í Prag þessi misserin og á Akureyri, svona eftir því hvert heimsfaraldrar og aðrar hamfarir feykja honum. Akkúrat núna er ég mislangt kominn með fjórar bækur. Ég er alveg við það að klára Bréf frá Bergstaðastræti 57, sem þau Brynhildur Karlsdóttir og Adolf Smári Unnarsson sömdu saman þegar þau leigðu saman í téðu húsi í Bergstaðastrætinu. Þau skrifa aðeins um sviðslistanámið sem þau eru í, ein besta senan er þegar Adolf Smári leikur lík í sínu fyrsta hlutverki á sviði og festist með aðra löppina sárkvalinn undir Hilmi Snæ. En aðallega er þetta samt bók um ástina, kærastar/ur og hjásvæfur eru iðullega bara nefndar með bókstöfum (eða starfstitli stundum) og maður er oft að reyna að átta sig á hverja maður þekkir þarna. Ég þekki allavega einn af þessum bókstöfum, kannski fleiri. Brynhildur gaf mér bókina einmitt í kjölfar þess að hún leigði með mér í Prag eitt haust og svo var ég minntur á að lesa bókina þegar ég hitti Adolf á næsta götuhorni og komst að því að hann er nágranni minn. Heimurinn er nefnilega ekki bara lítill í Þingholtunum.

Þá er ég búinn með fjórðunginn af Stol eftir Björn Halldórsson. Hún lofar góðu, ferðasaga ungs manns með öldruðum og heilabiluðum föður sínum – og á meðan pabbinn er týndur í eigin heilabilun þá er sonurinn alveg jafn týndur, þótt heilinn starfi enn eðlilega þá er það engin trygging fyrir því að lífið fúnkeri almennilega.
 


Ljóðabókin í staflanum er Swimming in the Shallow End eftir New York-skáldið Ron Kolm, einfaldlega af því ég hitti hann nýlega á litlu kaffihúsi niðrí Žižkov þar sem við lásum báðir upp – og gerðum svo auðvitað skiptidíl í kjölfarið eins og öll heiðarleg ljóðskáld. Þetta eru stutt ljóð og ansi lúmsk mörg – og svo er eitthvað magnað við að sjá ljóðin Covid-19 og 9/11 á sömu opnu, 21. aldar saga New York borgar á einni opnu.

 

Skáldskapur frá góðum og gömlum prófessorum

Loks er ég bara nýbyrjaður á Ljósgildrunni, doðrantinum hans Guðna Elíssonar, míns gamla prófessors. Hún er 800 síður og ég er ekki frá því að hún verði fyrsta bókin í nýjum lið á Menningarsmyglinu, sem heitir einfaldlega Doðranturinn – þar sem hugmyndin er að halda lesdagbók frekar en að skrifa hefðbundna dóma, ég held nefnilega að það form gæti hentað lengra stöffinu mun betur. Ég játa samt að aðalástæðan að sem menningarblaðamaður nenni ég ekki að lesa heilar 800 síður bara fyrir eina grein – hver veit, kannski skrifa ég 800 síður um hana á endanum.

Talandi um gamla prófessora, ég þyrfti að fara að lesa fleiri smásögur eftir minn yndislega ritlistarprófessor Aamer Hussein. Aamer er pakistanskur en flutti til Englands fimmtán ára, fyrir hálfri öld síðan, og hafði einstakt lag á að sína manni nýjar hliðar á öllum bókunum sem við lásum. Og maður finnur alveg sömu hlýju og mannskilning í sögunum hans og maður fann í tímum hjá honum. Hann kynnti mig líka fyrir tveimur bestu smásagnahöfundum sem ég hef kynnst. Annar höfundurinn kemur örugglega mörgum á óvart – Tennessee Williams – sem er verðskuldað með frægustu leikskáldum 20. aldarinnar, en ég er ekki frá því að hann sé enn betri smásagnahöfundur. Þessar sögur eru löðrandi í svita og verkamannaþreytu og ást og greddu og Ameríku eftirstríðsáranna. Hinn höfundurinn er Lydia Davis, sem gerir eitthvað nýtt og stórkostlegt við formið í nánast hverri einustu sögu. Ég hafði bara örlítinn pata af henni fyrir lesturinn, af því hún er fyrrverandi eiginkona Paul Auster, sem ég las upp til agna í Austurríki rétt fyrir aldamót. En þótt ég elski minn Auster þá gleymdi hann alveg að nefna það í minningarbókunum sínum hvað hans fyrrverandi er mergjaður höfundur.

Auster sjálfur er svo í bunkanum sem ég ræðst vonandi á næst – svona ef jólabækurnar ryðjast ekki fram fyrir röðina. 4321 er nefnilega 800 síður og gæti vel orði næsti doðrantur á eftir Ljósgildrunni.

 

Drykkfeld og ljóðelsk önd 

Efst í bunkanum er Arne Anka bók, en Arne þessi mun vera drykkfelld og ljóðelsk sænsk myndasöguönd. Óritskoðaða útgáfan af Andrési Önd jafnvel. Ég fann þrjár Arne Anka-bækur í fornbókabúð í Malmö og hafði haft orð á því við finnskan vin minn að ég skyldi skrifaða sænsku mögulega nógu vel fyrir myndasögu – ég væri að minnsta kosti alveg að pæla í að láta reyna á það. Og þannig endaði ég með þrjár bækur um blekaða önd í fanginu. Umræddur Finni er vel að merkja mesti bókafíkill sem ég þekki, flestir sem þekkja mig eru líklegri til að hafa hemil á mér í bókabúðum en slíkt hvarflar ekki að Harri mínum – sem núna er alvarlega að íhuga að kaupa aðra íbúð í sama stigagangi fyrir bækurnar sínar, enda veit hann réttilega að bækur eru svona sama og dauðar ef þær enda ofan í kassa í geymslum.

Í næstu fornbókabúð fann ég svo ævisögu Errolls Flynn og varð fljótur að kaupa hana. Ég er í sjálfu sér enginn sérstakur aðdáandi Flynn sem leikara – en hef hins vegar heyrt að þetta sé einhver allra mest djúsí ævisaga sem skrifuð hefur verið í Hollywood. Og bara það að fletta tilviljanakennt í bókinni bendir til að það sé alveg satt.

 

Ást á Finnlandi og bókelskir bíógestir

Klefi nr. 6 eftir Rosu Liksom fékk ég frá þýðandanum sjálfum, Sigurði Karlssyni, þegar ég tjáði honum að bókin væri orðin alveg uppseld. Ég ætla rétt að vona að einhver útgefandi bæti úr því, enda er myndin alveg stórkostleg og á pottþétt eftir að slá í gegn þegar hún kemur í Bíó Paradís seinna í vetur og því um að gera að senda bókelska bíógesti beint í næstu bókabúð að spyrjast fyrir um bókina. Það er mikið Finnland í þessum bunka, Fingerpori er þeirra myndasöguklassík og svo er eitt helsta Finnlands-skáld Íslands farinn að skrifa um nágrannana í vestri, Bjarmalönd Vals Gunnars míns gamla bíófélaga er nýkomin til Bæheims.

Svo eru tvær bækur sem munu þurfa að hafa fyrir því að vera betri en myndin. Ég hef alveg trú á því að Nomadland sé það eftir að hafa setið höfundarkvöld með Jessicu Bruder fyrr í sumar og aðeins flett í bókinni. Svo er þarna smásagnasafn eftir Ted Chiang, ein þeirra varð seinna af þeirri stórkostlegu mynd Arrival. Ég er aðeins skeptískari með hana, fyrsta smásagan náði mér ekki alveg, en þarf að gera aðra atlögu að hinum bráðum.
 

 Nokkrar mergjaðar bækur að lesa

En nóg um það sem ég er að lesa eða er að fara að lesa – líklega er rétt að hvetja lesendur til að lesa nokkrar mis-gamlar og mergjaðar bækur. Síðasta árið standa líklega þrjár helst upp úr hjá mér; Uppruni eftir Saša Stanišić er einfaldlega eitthvað það mergjaðasta sem ég hef lesið í langan, langan tíma og svo er Bróðir Halldórs Armands og Truflun Steinasr Braga það besta sem ég las í síðasta jólabókaflóði.

 

Trílógía um sjálfið

Það er best að enda lesturinn hérna í Bæheimi. Þið þekkið auðvitað öll Kafka, Kundera og Svejk. En þið ættuð líka öll að þekkja Karel Čapek, Bohumil Hrabal og Hedu Margolius Kovály. Þorgeir Þorgeirson og Olga María Franzdóttir þýddu Alveg glymjandi einvera, einhverja ljóðrænustu og fyndnustu skáldsögu sem fyrirfinnst – og þó, Lestir undir smásjá sem Baldur Sigurðsson þýddi er líklega enn fyndnari. Svo fann ég bók um Hrabal sem er ríkulega myndskreytt og er að hugsa um að taka íslenska höfunda og ljósmyndara í mjög einfaldan kúrs fyrir jólabókaflóðið 2022 – Hrabal er einfaldlega besta súpermódelið í rithöfundabransanum og ég yrði mjög glaður að sjá nokkrar Hrabalskar höfundamyndir aftaná jólabókunum.

Karel Čapek er þekktastur heima fyrir Salamöndrustríðið, sem Jóhannes úr Kötlum íslenskaði, og þekktastur á heimsvísu fyrir að birta fyrst orðið róbót á prenti – þótt orðið sé raunar komið frá Josef bróður hans. Fyrir þá sem vilja átta sig betur á tékkóslóvakískri sögu fyrir kommúnismann væri fátt betra en að lesa ævisögu T.G. Masaryk, fyrsta forsetans, sem Čapek skrifaði. En ástæðan fyrir því að þið ættuð öll að kynna ykkur Čapek er samt engin af þessum, ekki heldur sú staðreynd að hann skrifaði spásögn um atómsprengjuna aldarfjórðung áður en hún sprakk, nei, ástæðan er sú að trílógían hans um sjálfið er einfaldlega eitt merkilegasta verk heimsbókmenntanna á síðustu öld. Þær heita Hordubal, Meteor og An Ordinary Life upp á ensku og kallast bara Three Novels, en ættu skilið virðulegri titil – fyrir mér er þetta einfaldlega Trílógían með stórum staf.
 


Að skilja pólitíska harmleiki 20. aldar

Ljúkum þessu svo á henni Hedu Margolius Kovaly. Hún var lítt þekktur bókmenntaþýðandi lungan af ævinni, en það var ekki fyrr en undir lokin sem hennar eigin bækur fóru að vekja alvöru athygli. Og þá sérstaklega ævisagan, Under a Cruel Star: A Life in Prague 1941-1968. Sem er einfaldlega besta ævisaga sem ég hef nokkurn tímann lesið, kenndi mér bæði meira um helförina og meira um kommúnismann en nokkur önnur bók hefur gert. Ástralski gagnrýnandinn Clive James orðaði þetta eiginlega best: „Ef ég hefði 30 sekúndur til að mæla með einhverri einni bók sem gæti orðið metnaðarfullum ungum nemendum leiðarljós til þess að reyna að byrja að skilja pólitískar harmleiki 20. aldarinnar, þá myndi ég velja þessa.“ Það myndi ég líka gera, lesiði Hedu! Þá skiljiði þetta allt.

 

UppfærtMánudagur, 4. mars, 2024 16:26
Materials