Birna Björg
Birna Björg Guðmundsdóttir

Lesandinn | Birna Björg Guðmundsdóttir

Birna Björg Guðmundsdóttir er einn stofnenda Trans Vina, sem eru hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi. Hún velur bókina Trans barnið - Handbók fyrir fjölskyldur og fagfólk eftir Stephanie Brill og Rachel Pepper, sem nýverið kom út á íslensku. Bókin byggist á áralangri meðferðarvinnu og viðtölum höfundanna við trans börn, börn með ódæmigerða kyntjáningu og aðstandendur þeirra og mælir Birna eindregið með henni fyrir fjölskyldur og aðstandendur trans barna. Bókin er sú fyrsta sinnar tegundar sem birtist á íslensku.

Bókin er mjög mikilvæg fyrir mig sem móður trans barns, og styrkir okkur hjónin í þeim ákvörðunum sem við tökum fyrir dóttur okkar. Þarna er farið yfir öll hugtök og skilgreiningar, en þau mál geta verið flókin fyrir fólk sem hefur ekki kynnt sér þau. Þarna eru líka mjög margar reynslusögur frá öðrum foreldrum sem eru hughreystandi, við fáum þá tilfinningu að við séum að gera rétt fyrir dóttur okkar og sjáum að fleiri hafa verið í sömu sporum og við. Þarna er talað um hvernig við eigum að segja frá, upplýsa og tala á jákvæðan hátt um vegferð okkar. Þarna er líka kafli um heilbrigðiskerfið og hvað bíður okkar í framtíðinni og sagt frá valmöguleikunum sem dóttur okkar standa til boða. Þetta  er enn sem komið er eina bókin um trans málefni á íslensku, í henni er mjög mikið af góðum upplýsingum sem hjálpa öllum sem eru að ala upp trans börn eða vinna með þeim sem og börnum með ódæmigerða kyntjáningu.

Birna heldur sögustund á Borgarbókasafninu í Grófinni þann 7. desember, þar sem hún les upp úr sannsögulegri barnabók sem ber heitið  I am Jazz  - sem er falleg og hreinskilin saga trans stelpu. Sjá nánar á Facebook. 

UppfærtÞriðjudagur, 15. júní, 2021 14:25
Materials