Bókmenntavefurinn | Þorsteinn frá Hamri
Bókmenntavefurinn er fjársjóðskista bókmennta. Hér birtum við 20 ára gamlan pistil Þorsteins frá Hamri af vefnum:
FRÁ ÞORSTEINI FRÁ HAMRI
Það listaverk mun vandfundið sem ekki er í snertingu við málefni eða að minnsta kosti í einhverju málefnalegu samfloti. Framan af ritferli mínum hneigðist ég nokkuð til félagslegrar gagnrýni öðrum þræði, en hef yfirleitt hvorki litið á mig sem boðbera eins eða neins, hvað þá vegvísi, né tileinkað mér vísvitandi neitt hlutverk annað en þess manns sem er að setja saman þennan skáldskap hverju sinni. Ég reyni að vanda verk mitt eins og ég hef getu til, og væntanlega fara ljóð mín ekki varhluta af viðhorfum mínum til eins og annars; öll mannleg reynsla, ytra sem innra, er málefni í sjálfu sér. Ég hef stundum vitnað til orða suður-afríska skáldsins Breytenbach sem eitt sinn sagði í viðtali: „Öll sköpun er í sjálfu sér pólitísk. Með því að víkka vitund samborgara sinna leggur rithöfundurinn sitt af mörkum til betra mannlífs“.
Menn semja einfaldlega verk í samræmi við það hvernig þeim líður og hvert hugurinn stefnir, og verkið velur sér form við hæfi. Með vissu má fullyrða að hvers konar hughrif orki á sköpunarþörf manna, og í ljósi þess leyfi ég mér í þessu efni að álykta fremur almennt – út frá því sem ég þykist hafa sannreynt sjálfur.
Önnur staðhæfing kann hinsvegar að þykja einkalegri, og á þó vafalaust sammerkt við flesta sem fást við skáldskap: að öll sköpun sé eins konar brúarsmíð – milli hugtaka, milli tímaskeiða, milli manna, þar sem merkingar eru jafnframt útvíkkaðar ýmislega. Ljóð um tré fjallar ef til vill ekki fyrst og fremst um tré ef betur er að gáð, heldur þá spegilmynd sem það öðlast í hug þess sem virðir það fyrir sér og yrkir um það. Lækurinn sem við lékum okkur hjá forðum tíð kann að vera horfinn fyrir löngu, en hann streymir um hugann og minnið, og ummyndast, ef svo ber undir, í óvænt tákn nýrrar merkingar – nýjan læk sem enginn veit eftir hvaða farvegum kann að kvíslast síðar meir í mennskum hugum.
Þorsteinn frá Hamri, 2002
Málþing um skáldið verður haldið í aðalbyggingu Háskóla Íslands, laugardaginn 17. september frá kl. 10:00 og endar fjölbreytt dagskráin með Þorsteinsfögnuði kl. 17:15. Málþingið er á vegum félagsins Arfur Þorsteins frá Hamri, Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.