Guðmundur Felix Grétarsson
Guðmundur les mest sjálfshjálparbækur og reyfara og heldur mikið upp á rithöfundinn Dan Brown.

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | „Hún á líklega stóran þátt að ég hafði frumkvæði að fá ágrædda nýja handleggi“

Guðmundur Felix Grétarsson vakti heimsathygli þegar hann fékk handleggi grædda á sig fyrir um einu og hálfu ári í Lyon í Frakklandi, fyrstu manna til að undirgangast slíka aðgerð í heiminum. Guðmundur hefur verið opinskár með það að biðin eftir aðgerðinni hafi tekið á en hann hafi samt alltaf náð að halda í vonina. Hann segir það líka hafa komið sér vel að geta leitað í góðar bækur.

Það liggur beinast við að spyrja Guðmund Felix nánar út í bækurnar en áður við komum að því er áhugavert að forvitnast aðeins um hann sjálfan, er Guðmundur til dæmis mikill lestrarhestur?

„Ég les svolítið í skorpum, það fer eiginlega eftir tímabilum í lífi mínu,“ segir hann. „Sem unglingur átti ég kort hjá Bókasafni Kópavogs og var duglegur að nota það, en eftir að ég missti handleggina þá varð erfiðara fyrir mig að höndla bækur þannig að ég fór að nota hljóðbækur og fékk þær lánaðar á Blindrabókasafninu. Þar sem ég bý erlendis núna er Amazon mín stærsta uppspretta bóka og ég nota Kindle sífellt meira.“

Spurður hvenær lestraráhuginn hafi kviknað segir Guðmundur það í raun hafa gerst fyrsta sumarið sem hann var sendur í sveit.

„Ég var 12 ára og komst þar í kynni við bækur spennusagnahöfundarins Alistair MacLean og drakk nánast í mig allt safnið hans. Eftir það var ekki aftur snúið,“ segir hann og brosir.

Enn í dag segist Guðmundur helst lesa reyfara sér til dægrastyttingar.

„Reyfara og sjálfshjálparbækur. Það er ákveðin slökun fólgin í því geta horfið inn í söguheim reyfara. Maður gleymir alveg stund og stað. Sjálfshjálparbækur eru síðan oft svo fróðlegar og geta hjálpað manni að læra á sjálfan sig og á lífið.“

Alcoholics Anonymus

Beðinn um að telja upp bækurnar sem hafa haft hvað djúpstæðust áhrif á líf hans nefnir Guðmundur fyrst til sögunnar Alcoholics Anonymus. „Þessi bók, eða AA bókin eins og hún er kölluð í daglegu máli, var fyrst gefin út árið 1939 og fjallar um það hvernig 100 fyrstu meðlimir AA náðu bata eftir leiðum samtakanna. Bókin segir sögu Bill W sem eitt sinn var farsæll fjárfestir og markaðsgreinandi en missti allt í hendurnar á Bakkusi,“ lýsir Guðmundur. „Farið er yfir það hvernig röð atvika varð til þess að kerfi, 12 reynsluspor AA samtakana, umbreytti lífi Bills W og eins þeirra 100 sem á eftir honum komu.“

Guðmundur getur þess að þegar hann hafi komist í tæri við bókina hafi hún verið búin að valda straumhvörfum í lífi fjölda fólks, milljóna einstaklinga um allan heim og hjálpað þeim að öðlast heilbrigt og innihaldsríkt líf. Sjálfur hafi hann uppgötvað bókina á erfiðum tíma í lífi sínu.

„Ég las hana á dekksta tíma tilveru minnar, þegar ég trúði að ekkert gæti orðið til þess að ég fyndi frekari tilgang með lífinu,“ segir hann. „Ég hafði misst heilsuna, sjálfstæði og sjálfsvirðingu. En með því að fylgja í fótspor Bill W og allra hinna, sem sagt er frá í bókinni, fann ég máttinn sem ég þurfti til að snúa blaðinu við.“

Mátturinn í núinu

Mátturinn í núinu, fyrsta bók rithöfundarins og „andlega kennarans“ Eckhart Tolle sem kom út 1997 er önnur bókin sem Guðmundur nefnir. Hann segir hana hafa haft gríðarleg áhrif á líf sitt er. „Þetta er bók sem ég las fljótlega eftir AA-bókina og var því opinn fyrir nýjum, andlegum lausnum,“ útskýrir hann.

Um hvað snýst bókin?

„Sem ungur maður þjáðist Tolle þessi af þunglyndi og depurð sem skyndilega breyttist þegar hugsun laust ofan í höfuðið á honum: „Ég get ekki lifað með sjálfum mér“. Í kjölfarið velti Tolle fyrir sér hver þessi „ég“ væri sem hann gat ekki lifað með. Hvort þetta væri kannski ekki sami maðurinn. Í bókinni útskýrir hann muninn á sjálfinu og „egóinu“ og hversu mikilvægt er að lifa í núinu, lífið sé hér og nú á meðan eftirsjá og áhyggjur af framtíðinni bæti bara á þjáningar okkar,“ lýsir Guðmundur.

Hann segist yfirleitt eig frekar erfitt með að meðtaka trúarlega texta, einfaldlega vegna þess hversu fjarstæðukenndir honum finnst þeir oft hljóma, en Tolle útskýri hlutina með furðu einföldum hætti. „Og við lestur þessarar bókar hans uppgötvaði ég ákveðinn sannleika um sjálfan mig og tilveruna,“ segir hann.

Ný Jörð: áttaðu þig á tilgangi lífs þíns

Ný Jörð, bók eftir sama höfund frá árinu 2005, hafði líka mikil áhrif á Guðmund. „Ég var orðinn mikill aðdáandi Tolle Eckharts þegar ég las hana enda farinn að finna töluverðan mun á mér og viðhorfum mínum til tilverunnar eftir að hafa lesið Máttinn í núinu. Þótt Ný jörð sé á svolítið svipuðum nótum og Mátturinn í núinu þá hún er aðeins praktískari þar sem hún kennir manni að beita hugmyndafræði fyrstu bókarinnar í daglegu lífi. Það var því alveg jafn hressandi að lesa hana og Máttinn í núinu.“

Guðmundur segir Nýja jörð ennfremur hafa hjálpað sér að byggja ofan á þann grunn sem hann hafði öðlast í sinni sjálfsvinnu. Bókin hafi víkkað sjóndeildarhring sinn til muna.

„Eftir lestur hennar fór ég í raun að finna fyrir sterkari tengingu við aðra,“ segir hann blátt áfram. „Sterkari tengingu við fólk og bara samfélagið í heild sinni.“

Sjö venjur til árangurs

Bók Stephen R. Covey, Sjö venjur til árangurs (The 7 Habits of Highly Effective People) frá árinu 1989, er önnur bók sem Guðmundur segir hafa haft djúpstæð áhrif á sig, en í henni telur höfundurinn upp sjö venjur sem fólk getur tileinkað sér vilji það ná árangri í lífinu.

„Fyrstu þrjár venjurnar lúta að persónulegum vexti; að öðlast sjálfstæði. Venjur fjögur, fimm og sex snúast síðan um samvinnu og samskipti og sú sjöunda gengur út á að „endurnýja“ sjálfan sig og huga að eigin heilbrigði,“ lýsir hann.

Að sögn Guðmundar er bókin löng og ítarleg og uppfull af praktískum dæmum. „Covey telur - og ég er á sama máli - að ef við ætlum að breyta einhverju, til dæmis tilteknum aðstæðum, þá þurfum við að breyta okkur sjálfum,“ segir hann. „En ef við ætlum að gera það þá verðum við fyrst að breyta okkar eigin viðhorfi til hlutanna. Eða eins og Covey skrifar: "The way we see the problem is the problem".“

Guðmundur segir Sjö venjur til árangurs í raun hafa hjálpað sér að skilja hismið frá kjarnanum og taka nýja stefnu í lífinu.

„Hún á líklega stóran þátt í því að ég hafði frumkvæði að því að fá ágrædda nýja handleggi.“

Ríki pabbi, fátæki pabbi

Síðasta bókin sem Guðmundur nefnir er Ríki pabbi, fátæki pabbi frá árinu 1997. „Bókin fjallar um Robert Kiyosaki og feður hans tvo: Blóðföður hans, fátæka pabba, og föður besta vinar hans, ríka pabba og hvernig báðir þessir tveir menn höfðu áhrif á viðhorf Kiyosaki til peninga og fjárfestinga,“ segir hann.

Að mati Guðmundar er einföld framsetning einn helsti kostur bókarinnar. „Það hvernig Ríki pabbi, fátæki pabbi er sett fram með „alvöru“ dæmum gerir hana auðskiljanlega og aðgengilega,“ bendir hann á. „Bókin opnar augu manns fyrir því hvernig fjármagn raunverulega virkar. Hún læknaði mig til dæmis af óttanum við fátækt því einn helsti lærdómurinn sem ég dró af lestri hennar er sá að á meðan ég fjárfesti í sjálfum mér og færni til að búa til pening þá verð ég aldrei fátækur - bara tímabundið blankur.“

Var einhver ein bók sem hafði meiri áhrif á hann en önnur?

Guðmundur hugsar sig um. „Nei, ekki get ég nú sagt það. Ég myndi frekar segja að þessar fimm bækur hafi átt þátt í móta sýn mína á lífið, sýn sem hefur fylgt mér í gegnum góðu tímabilin í lífi mínu og hjálpað mér að takast á við þau erfiðu.“