Gerður Arinbjarnadóttir
Á ferðalögum finnst Gerði gott að grípa í glæpasögur eða fræðandi efni „sem skilur eitthvað eftir sig“, eins og hún orðar það. Ástarsögur verða hins vegar oftar en ekki fyrir valinu á kvöldin.

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | Gerður lætur lesblinduna ekki stöðva sig

Gerður Arinbjarnardóttir, eigandi Blush, lætur lesblindu ekki stoppa sig. Hún segist lesa alls konar bækur sér til gagns og ánægju en hefur mest gaman af ástarsögum og reyfurum.     

„Ég er nú kannski ekki mikill lestrarhestur þar sem ég er mjög lesblind og á því erfitt með að lesa, en ég hlusta mikið á hljóðbækur og hef mjög gaman af því,“ segir Gerður létt í bragði.

Hvenær fór Gerður að sækja í hljóðbækur af einhverri alvöru?

„Ég fór að hlusta mikið á hljóðbækur þegar ég byrjaði að ferðast ein vinnunnar vegna fyrir um það bil átta árum. Ég er nefnilega mjög flughrædd,“ viðurkennir hún, „og hlusta á hljóðbækur í flugi til að róa taugarnar. Það hefur virkað mjög vel.“

Núna fer Gerður heldur ekki að sofa öðruvísi en að hlusta á hljóðbók.

„Það hjálpar mér að slökkva á hausnum á kvöldin,“ útskýrir hún. „Stundum hlusta ég á eitthvað fróðlegt efni,“ upplýsir hún, „en mér finnst líka mjög gaman að detta í reyfara eða „heilalausar“ ástarsögur með einföldum söguþræði.“

Hún flýtir sér að bæta við að reyfararnir megi samt ekki vera of æsilegir.

„Því þá get ég ekki sofnað,“ segir hún og hlær. „Ég hef nefnilega brennt mig á því, oftar en einu sinni, að velja bók sem er annað hvort svo góð eða svo spennandi að get ég hreinlega ekki hætt að hlusta og ligg síðan andvaka uppi í rúmi.“

Ástarsögur verði þar af leiðandi oftar en ekki fyrir valinu á kvöldin að sögn Gerðar en á ferðalögum finnst henni gott að grípa í glæpasögur eða fræðandi efni „sem skilur eitthvað eftir sig“, eins og hún orðar það.

En hvaða bækur hafa haft mest áhrif á Gerði?

Unleash the Power Within eftir Tony Robbins

„Frábær bók sem hjálpar fólki að brjótast úr viðjum vanans og ná árangri í lífinu. Hún varð til þess að ég skráð mig á námskeið hjá Tony, en námskeiðin hans hafa hjálpað mér gríðarlega, styrkt sjálfstraust mitt og orðið til þess að ég hef kynnst frábæru fólki um allan heim. Þetta er klárlega sú bók sem hefur skilið hvað mest eftir sig.“

The Ethical slut eftir Dossie Easton og Janet W. Hardy

„Þessi bók hjálpaði mér betur að skilja hvað felst í því að vera kynvera, hvað við erum fjölbreytt og síðast en ekki síst að við þurfum ekki öll að vera eins. Bók sem er bæði skemmtileg en líka mjög fræðandi.“

Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur

„Spennusaga um það hvernig eitthvað hroðalegt í æsku getur undið upp á sig og leitt til skelfilegra atburða síðar á lífsleiðinni. Það er ekki langt síðan ég þessa bók og hún greip mig frá fyrstu blaðsíðu. Þetta er svona bók sem manni langar að lesa aftur og aftur því maður uppgötvar alltaf eitthvað nýtt. Henni er í raun skipt upp í tvær sögur sem síðan fléttast saman í lokin. Mjög spennandi og óvænt endalok.“

Sperm war

„Bók sem fjallar um sæði. Hljómar kannski ekki spennandi,“ segir Gerður og hlær, „en bókin útskýrir á skemmtilegan hátt þróunarsöguna sem dæmi, af hverju fólk fjölgar sér og hvernig sæði getur haft mögnuð áhrif á hegðun okkar. Stutt bók en stútfull af fróðleik og skemmtilegum pælingum.“

UnDo It eftir Anne og Dean Ornish

„Í stuttu máli fjallar þessi bók um heilsu og mataræði og varpar ljósi á það hvernig maður getur notað mataræði án öfga til að fyrirbyggja lífsstílssjúkdóma. Ég er reyndar ekki búin að lesa hana alveg til enda,“ viðurkennir Gerður, „enda er bókin í kringum 1500 blaðsíður, en hún hefur kennt mér heilmikið.“

Materials