Styrkþegar - Barnamenningarsjóður 2023
Styrkþegar - Barnamenningarsjóður 2023

Spennandi verkefni í bígerð fyrir tilstilli styrkveitinga úr Barnamenningarsjóði

Borgarbókasafnið hlaut á dögunum veglega styrki úr Barnamenningarsjóði en þeir voru afhentir við hátíðlega athöfn 21. maí s.l. Framlögin gera safninu kleift að þróa og bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá fyrir börn og ungmenni í samstarfi við listamenn og aðra sem vilja vinna með og tengjast starfsemi safnsins.

Agnes Ársæls og Bára Bjarnadóttir

Hinsegin prentfélagið er yfirskriftin á nýjum klúbbi fyrir 15 – 18 ára ungmenni þar sem þau fá tækifæri til að taka virkan þátt í gerð sjálfstæðrar útgáfu, allt frá hugmyndavinnu til útgáfufögnuðar. Klúbburinn samanstendur af tólf ungmennum sem tengja við hinseginleikann á einhvern hátt og vinna þau að útgáfunni í samtali við leiðbeinendur og hönnuð. Í ferlinu verður lögð áhersla á að virkja sköpunarkraftinn, tjáningu og samstarf.
Samstarfsaðilar auk ungmennanna verða Bára Bjarnadóttir, fyrir hönd Borgarbókasafnsins, Agnes Ársæls myndlistarmaður og Adam Flint hönnuður.
(Á myndinni fyrir ofan eru þær Agnes Ársæls og Bára Bjarnadóttir.)
 

Photo Dagur Gunnarsson

Hvað er ljóðaslamm? er yfirskrift undirbúningsnámskeiða sem haldin verða fyrir ungt fólk frá 16 ára aldri. Þátttakendur fá leiðsögn reyndra listamanna til að efla sjálfstraustið og bæta við þekkingu sína á ljóðagerð, flutningi og sviðsframkomu. Markmiðið er að styrkja ungt fólk í notkun tungumálsins, vekja áhuga þeirra á ljóðlist og undirbúa þátttöku í Ljóðaslammi Borgarbókasafnsins sem haldið verður á Safnanótt 2024.
Samstarfsaðilar auk þátttakenda verða Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, fyrir hönd Borgarbókasafnsins og Jón Magnús Arnarsson.
(Á myndinni fyrir ofan má sjá sigurvegara Ljóðaslamms Borgarbókasafnsins 2015, þær Heklu Baldursdóttur og Halldóru Líney Finnsdóttur.)

Við matarborðið er óhefðbundinn samtalsvettvangur um umhverfismál, listirnar, samfélagið og hlutverk almenningsbókasafnsins sem tengslavettvangs fyrir ungmenni á myndlistarbraut í FB. Verkefnið er samstarfsverkefni Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Borgarbókasafnsins Gerðubergi.  Markmiðið með verkefninu er að byggja samstarfsbrú milli bókasafnsins og skólans. Undanfarin ár hefur útskriftarsýning brautarinnar verið sett upp í Gerðubergi en vilji er til að efla og dýpka samstarfið enn frekar og bjóða nemendum að eiga í hverjum mánuði skapandi samtal við matarborðið á skólaárinu 2023-2024. 
Ilmur Dögg Gísladóttir, Svanhildur Halla Haraldsdóttir og Atli Pálsson hjá Borgarbókasafninu Gerðubergi hafa umsjón með verkefninu.

Þess ber einnig að geta að Borgarbókasafnið er samstarfs- og /eða hýsingaraðili í eftirtöldum verkefnum sem einnig hlut styrk úr sjóðnum þetta árið:

-  Sögur – Skapandi skrif og sögur – Verðlaunahátíð barnanna - Sjá Facebook síðu verkefnisins
-  Mýrin – alþjóðleg barnabókmenntahátíð - Sjá heimasíðu hátíðarinnar
-  Tíst tíst! Tweet tweet! Cwir Cwir! – Sögustundir Evu Marcinek og Nönnu Gunnarsdóttur

Við óskum öllum þeim sem standa að þessum verkefnum innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með framgangi verkefnanna.