Mynd úr hljóðveri

Loksins er Hljóðverið opið!

Nú hefur nýtt Verkstæði, Hljóðverið, loksins verið opnað, í Borgarbókasafninu Úlfarsárdal. Þar geta notendur bæði tekið upp og hljóðblandað tónlist, eða tekið upp og unnið hlaðvörp. Allar helstu græjur eru til staðar, hljóðfæri og nóg pláss. Umsjónarmaður Hljóðversins er einnig á staðnum, sem getur hjálpað til við uppsetningu og upptökur ef þörf er á.

Mynd af upptökubúnaði

Herbergin eru tvö: Upptökuherbergi og hljóðblöndunarherbergi. Á staðnum eru meðal annars gítar, bassi, trommur, hljómgervill, úrval af míkrafónum, hljóðkerfi með bassaboxi og hljóðvinnsluforrit. Gestum er einnig velkomið að koma með sínar græjur ef þörf er á. 

Notendur þurfa að hafa virkt bókasafnskort hjá Borgarbókasafninu, en annars er þessi þjónusta frí. Sjón er sögu ríkari, komdu og prófaðu! Eina sem þú þarft að gera er að bóka tíma hér. Hægt er að bóka hljóðverið á mánudögum og þriðjudögum

Yoko Ono Yoko Ono Yoko Ono

Það eru til óteljandi frægar sögur úr hljóðverum, sem safnast hafa saman í gegnum tíðina. Ómetanleg verðmæti hafa orðið til í óvæntum aðstæðum, einhver kemur ósofinn inn á æfingu, í uppnámi eða ástarsorg, síminn hringir í miðri upptöku, eða trommari fær óvænt hláturskast sem fær að vera með á plötunni. Galdrar gerast þegar skapandi einstaklingar koma saman og sameina krafta sína. 

En með furðulegri aðstæðum má nefna, þegar Bítlarnir voru að taka upp Abbey Road í samnefndu hljóðveri í London, og John Lennon lét koma rúmi fyrir í stúdíói þar fyrir Yoko- Ono, sem þá var ólétt og að jafna sig eftir bílslys. Þá var hljóðnema komið fyrir yfir rúminu, ef ske kynni að Yoko vildi taka þátt í upptökunum. 

Það er nóg pláss í Hljóðverinu í Úlfarsárdal og notendur mega koma með eigin græjur... en kannski er rúm samt fulllangt gengið.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 16. maí, 2023 11:49