Bókabíllinn Höfðingi og sögubíllinn Æringi

Höfðingi og Æringi setjast í helgan stein

Bókabílnum Höfðingja og sögubílnum Æringja verður nú lagt eftir langa og dygga þjónustu við borgarbúa til að bregðast við hárri niðurskurðarkröfu á Borgarbókasafnið vegna slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Báðir bílarnir eru komnir til ára sinna og legið hefur ljóst fyrir um nokkurt skeið að endurnýja þyrfti bílana ef starfseminni skyldi haldið áfram. Höfðingi verður starfræktur til áramóta en starfsemi Æringja hefur nú þegar verið lögð niður.

Sögubíllinn Æringi hefur ferðast á milli leikskóla og frístundaheimila í borginni í 14 ár auk þess sem hann hefur komið við sögu á ýmsum hátíðum á vegum borgarinnar. Sögubíllinn var vígður við leikskólann Tjarnarborg þann 22. febrúar 2008 og hefur alla tíð verið starfræktur af Borgarbókasafninu. Ólöf Sverrisdóttir leikkona og verkefnastjóri sem setið hefur við stýrið frá 2008, hefur brugðið sér í hin ýmsu gervi og sagt börnum sögur og ævintýri og er líklega þekktust sem Sóla sögukona.

Bókabíllinn Höfðingi á sér mun lengri sögu eða allt aftur til ársins 1969 og eflaust eiga margir borgarbúar, jafnt yngri sem eldri, góðar minningar um hann. Eftir því sem söfnum Borgarbókasafnsins hefur fjölgað hefur þörfin fyrir þjónustu bókabílsins minnkað til muna en honum hefur einkum verið ætlað að þjóna þeim sem ekki búa nálægt einhverjum af þeim 7 bókasöfnum sem borgin rekur.

Við þökkum samveruna, notalegar sögu- og spjallstundir, í Æringja og Höfðingja á liðnum árum.