Fréttir | Umbreyting Grófarhúss
Framtíðarsafn byggt á þörfum notenda.
Tillaga hefur verið samykkt í Borgarráði um að efna til hönnunarsamkeppni um endurgerð og stækkun Grófarhúss. Í húsinu eru nú Borgarbókasafnið, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Borgarskjalasafn. Haldið verður opið forval og samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands.
Við hjá Borgarbókasafninu fögnum þessum tíðindum og hlökkum mikið til að kynna framtíðarbókasafnið, sem er fyrst og fremst byggt á þörfum notenda.
Hér fyrir neðan má lesa umfjöllun um verkefnið, sem birtist nýverið í fjölmiðlum.
Fjölbreyttur ævintýra- og fróðleiksheimur
Framkvæmdin sjálf mun fela í sér gagngera endurgerð Grófarhússins við Tryggvagötu og tengingu við nýja viðbyggingu. Stefnan er að Grófarhúsið verði lifandi menningar- og samfélagshús í miðborg Reykjavíkur - fjölbreyttur ævintýra- og fróðleiksheimur fyrir börn og fjölskyldur og gesti á öllum aldri.
Aðalútibú Borgarbókasafnsins er til húsa í Grófarhúsinu en hugmyndin er að breikka starfsemi þess í anda breytinga á bókasöfnum í nágrannalöndunum. Grófarhúsið á að verða hús fyrir fólk þar sem „allir eru velkomnir og upplifa að þeir séu það“ eins og segir í forsögn að fyrirhugaðri samkeppni. „Fólk á að geta komið saman, verið einsamalt, leitað sér upplýsinga eða bara dvalið í fjölbreyttum herbergjum á sínum forsendum og notið jafns aðgengis að fjölbreyttu rými, upplifun og upplýsingum, óháð samfélagsstöðu, efnahag, kyni, heilsu eða þjóðerni.“
Þess má geta að söfnin í Grófarhúsinu eru nú þegar afar vinsæll viðkomustaður borgarbúa. Þar eru sýningar og fjölmargir viðburðir vikulega allt árið.
Þakgarður með útsýni yfir höfnina
Í forsögninni er gert ráð fyrir að upprunalegt útlit hússins verði endurheimt og að lögð verði áhersla á endurnýtingu og sjálfbærni í samræmi við hugmyndafræði Græna plansins. Þá eru einnig hugmyndir um að á húsinu verði þakgarður þar sem borgarbúar geta notið samveru og útsýnis yfir höfnina og Grjótaþorpið.
Á jarðhæð hússins er gert ráð fyrir útfærslu á borgaraþjónustu og sérstaklega hugað að þjónustuhönnun. Horft er til framsækinna fyrirmynda í útlöndum og felur tillagan í sér feril með aðkomu alþjóðlegs sérfræðings, Aat Vos, með mikla reynslu af sambærilegum verkefnum.
Gert er ráð fyrir því Borgarskjalasafn flytjist á nýjan stað. Könnunarviðræður hafa staðið yfir við Framkvæmdasýslu ríkisins um hugsanlega sameiginlega byggingu fyrir Þjóðskjalasafn og Borgarskjalasafn. Niðurstaða þeirra er ekki fengin.
Stefnt verður að því að endurgerðin verði umhverfisvottuð og standist kröfur um græna fjármögnun.