Hópur fólks ræðir inngildingu

Endurhugsa aðgengi og menningarrými | Opið samtal

Hvernig skilgreinum við skrefin að aðgengilegri menningarrýmum? Þurfum við að æfa okkur í að flétta ólíkar frásagnir saman eða er bútasaumur vænlegri aðferð þar sem ólík framlög fá að standa hlið við hlið?

Menningarstofnanir sækjast eftir að ná til breiðs hóps notenda. Við viljum tengjast nærumhverfinu, menntalandslaginu og fá fleiri til að taka þátt í mótun starfsins. Í opnu samtali á Torginu ræddum við leiðir til að rýna með gagnrýnum hætti í listræna stjórnun og dagskrágerð innan menningargeirans. Við fengum góða gesti sem starfa innan menntageirans í Leipzig sem ræddu opinskátt við Lukas Bury þátttakanda í Gerðuberg kallar, Hlín Gylfadóttur frá Borgarsögusafni og Ingu Margréti Jónsdóttur frá RIFF um eigin verkefni og þróun stofnanaumhverfisins.

Spennandi umræður sköpuðust í kringum þekkingarmiðlun og samband menningarstofnana við menntageirann. Í hvernig umhverfi miðlum við þekkingu um samfélagið til nemenda og er mikill munur á menntaumhverfi í Leipzig og Reykjavík? RIFF hefur nýtt sér fjölbreyttan vettvang til að miðla þekkingu og menningu með kvikmyndalist. Borgarsögusafnið býður notendum með ólíkar þarfir að móta umhverfi sýningarrýma til að auka aðgengi, þá er til dæmis boðið upp á sérstaka viðburði í samstarfi við félagasamtök til að kynnast nýjum notendahópum betur. Samsköpun með notendum er hluti af stefnu Borgarbókasafnsins og dæmi um samsköpun með notendum eru verkefni eins og Stofan | A Public Living Room og Gerðuberg kallar. Lukas Bury, fyrsti þátttakandi í Gerðuberg kallar, tók þátt í samtalinu og ræddi eigið rannsóknarverkefni „They have no pictures on the walls“ sem hann vinnur um samfélag Pólverja á Íslandi og hvernig hugmyndir um örugg rými og merkingu þess að tilheyra samfélagi birtast í því.

Við þökkum kærlega fyrir innlitið.

Opin samtöl halda áfram á Torginu og næstu umræðuefni snerta á sjálfbærum samfélögum og hlutverki bókasafna í nútímasamfélagi.

 

Ef þú er með eigið málefni sem þig langar að ræða á bókasafninu, þá erum við opin fyrir nýjum hugmyndum.

Frekari upplýsingar um opin samtöl á bókasafninu veitir:
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 16:01