Vika 17 logo

Vika 17 | Alþjóðleg vika heimsmarkmiðanna á bókasöfnum

Vika 17 í almanaksárinu er alþjóðleg vika heimsmarkmiðanna á bókasöfnum.  

Hversu oft hugsar þú um heimsmarkmiðin í þínu daglega lífi? Getur verið að þú sért að vinna að þeim án þess að vita af því?

Þegar þú ferð á bókasafnið kemur þú okkur öllum skrefinu nær heimsmarkmiðunum - í það minnsta einhverjum þeirra, en þau eru samtals 17.

Heimsmarkmiðin eru mörg og fjölbreytt. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Borgarbókasafnið, rétt eins og Amtsbókasafnið á Akureyri og bókasöfn víða erlendis t.d. í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, hafa ákveðið að nýta viku 17 í almanaksárinu, 22. - 29. apríl, til að vekja athygli á því hvernig bókasöfn stuðla að sjálfbærri þróun.   

Sem dæmi um verkefni sem vinna beint og óbeint að heimsmarkmiðunum má nefna Spjöllum með hreim, íslenskukennslu, sem auðveldar aðgengi að tungumáli og nýju málsamfélagi (markmið 4 – menntun fyrir öll ), óháð stétt eða stöðu (markmið 10 – aukinn jöfnuður).  

Í Lautarferðum á bókasafninu stuðlum við að heilbrigðu lífi og vellíðan (markmið 3 - heilsa og vellíðan) með því að deila mat (markmið 2 – ekkert hungur) og skapa vettvang fyrir uppbyggileg tengsl.  

Reglulega fer fram Opið samtal þar sem upplýsingar og umræður um grundvallarréttindi fara fram en í samtölunum skapast jarðvegur fyrir frið og réttlæti ( markmið 16 - friður og réttlæti).

Ekki gleyma Græna bókasafninu með t.d. öllum skiptimörkuðunum sem gefa tækifæri á að breyta neyslumynstrum (markmið 12 - ábyrg neysla og framleiðsla) og nýopnaða Fræsafninu - þar sem öllum er velkomið að taka fræ og gefa fræ - frábær leið til að vernda nýtingu vistkerfa á landi og styrkja líffræðilega fjölbreytni (markmið 15 – líf á landi). 

Stórir draumar - lítil skref er svo sýning sem sett verður upp á Borgarbókasafninu Grófinni á Barnamenningarhátíð en þar munu börnin vinna undir handleiðslu Kristínar R. Vilhjálmsdóttur og sækja sér innblástur í heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og bækur úr bókaflokknum Litla fólkið og stóru draumarnir sem fjalla um framúrskarandi einstaklinga sem hafa haft jákvæð áhrif á heiminn. 

Þá má nefna að á Borgarbókasafninu er einnig ókeypis aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu (markmið 6 – hreint vatn og hreinlætisaðstaða).

Gætum við t.d. byrjað vinnudaginn á bókasafninu frekar en að sitja í umferð þvert um bæinn? Bókasafnið er staðsett á átta stöðum um alla borg og býður upp á örugg og fjölbreytt rými fyrir alla borgarbúa sem standa vörð um sameiginlega menningararfleifð  (markmið 11 - sjálfbærar borgir og samfélög).