Tove Jansson 107 ára

Flestir Íslendingar sem komnir eru til manns þekkja sjálfsagt finnska rithöfundinn og myndlistarkonuna Tove Jansson. Hennar þekktasta arfleifð eru Múmínálfarnir, litlu skondnu og heimspekilegu verurnar sem í einlægni velta upp stórum spurningum og leita svara og skilnings. Í Múmínálfunum sameinast störf Jansson, sem bæði var afkastamikil á sviði myndlistar og ritstarfa. Í sögunum um þessar margslungnu verur af ýmsum stærðum og gerðum, má finna djúpa visku sem alltaf virðist ný og viðeigandi. 

Önnur bók sem fjallar á einlægan og látlausan hátt um heimspekileg málefni er Sumarbókin sem notið hefur vinsælda allt frá útgáfu hennar, árið 1972. Bókin var gefin út á íslensku, í þýðingu Ísaks Harðarsonar árið 2020.  Sagan segir frá Soffíu litlu og ömmu hennar og sumardvöl þeirra á smáeyju undan strönd Finnlands.

 

Flokkur
UppfærtMánudagur, 9. ágúst, 2021 12:38
Materials