Spjalló hlýtur styrk

Á dögunum hlaut Borgarbókasafnið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir Spjalló – samvera og samvinna á bókasafninu, nýju og spennandi samstarfsverkefni með Kvennaskólanum í Reykjavík.

Haustið 2025 munu nemendur sem eru að læra íslensku sem annað mál á nýstofnaðri íslenskubraut Kvennaskólans, og nemendur af öðrum brautum skólans, koma saman í vikulegar heimsóknir á Borgarbókasafnið Grófinni. Þar munu þeir vinna saman verkefni tengd áhugamálum sínum og bakgrunni þar sem áhersla verður lögð á gleði og samveru en einnig samvinnu þegar kemur að tungumálinu, tækni, borðspilum og öðru.

Kompan hlaðvarpsstúdíó

Dæmi um verkefni sem nemendur munu geta unnið saman að er gerð þátta í hlaðvarpsstúdíóinu Kompunni, t.d. um það hvernig er að stunda nám í mismunandi löndum, laga-og textasmíðar um sameiginleg áhugamál, myndbandagerð með grænskjá og sjálfustöð á Verkstæðinu, fallegt föndur og spila saman þau fjölmörgu borðspil sem finna má í hillum bókasafnsins.

Nemendum til halds og traust verða Katarzyna Agnieszka Rabeda, deildarstjóri íslenskubrautar Kvennaskólans, Sigurður Hermannsson og Ingunn Hreinberg Indriðadóttir. Öll hafa þau áralanga reynslu í að kenna íslensku sem annað mál og hafa Sigurður og Ingunn meðal annars verið hluti af kennarateymi Spjöllum með hreim frá upphafi. Einnig mun Valgeir Gestsson, sérfræðingur í tónlistardeild Borgarbókasafnsins, vera nemendum innan handar þegar kemur að tæknimálum, tónlist, hlaðvarps-og myndbandagerð.

Borgarbókasafnið þakkar fyrir stuðninginn og hlakkar mikið til þegar 5. hæðin í Grófinni fyllist af Kvenskælingum í haust.

 

Logo ráðuneytis

 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 3. apríl, 2025 11:07