Plastplan - allt í standi á bókasafninu
Borgarbókasafnið tekur þátt í Grænum skrefum Reykjavíkurborgar, en verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur og minnka umhverfisáhrif í starfsemi borgarinnar.
Safnið er nú komið í samstarf við íslenska frumkvöðlafyrirtækið Plastplan sem sérhæfir sig í endurvinnslu plastefna, hönnun og fræðslu. Í samstarfinu er lögð áhersla á hringrás plastefna; plast er sótt vikulega á söfnin og sama plastinu svo skilað aftur til baka í formi nýrra hluta sem nýtast í daglegu starfi. Þannig er unnið í anda hugmyndafræði Plastplans, þar sem áherslan er á að breyta óheilbrigðu sambandi samfélagsins við plast, sem er verðmætt hráefni. Fyrsta afurðin eru stórglæsilegir bókastandar sem koma að góðum notum á bókasöfnunum.
Við fengum Björn Steinar Blumenstein og Brynjólf Stefánsson, stofnendur Plastplans, til að segja okkur aðeins frá verkefninu.
Hvað er Plastplan?
„Plastplan er sprottið upp úr áhuga okkar á umhverfis- og auðlindamálum. Björn Steinar flutti til Hollands til að sérhæfa sig í plastendurvinnslu eftir að hafa lokið námi í vöruhönnun og nokkrum árum eftir heimkomu þróaðist plastendurvinnslan sem við rekum í dag frekar náttúrulega. Staðan í endurvinnslu á landsvísu er í skammarlega lélegum farvegi og því gerum við okkar besta til að bæta úr því.“
Er notað plast ekki bara rusl?
„Plast er ekki það sama og plast, flokkarnir sjö eru jafn ólíkir innbyrðis og mismunandi tegundir málma og hver tegund hefur sína kosti og galla. Plastplan er mótfallið notkun á einnota plasti á borð við umbúðir, en þegar kemur að vönduðum nytjahlutum og öðrum endingargóðum vörum getur plast oft verið umhverfisvænn og góður kostur. Þess vegna finnst okkur frábært að geta umbreytt einnota plasti í verðmæta nytjahluti sem eru hvort tveggja boðberi hugmynda okkar um möguleika í endurvinnslu hráefna og framtíðarlausnir.“