Röde upptökutæki í Kompunni

Hlaðvörp úr Kompunni

Samsafn af einkennismyndum nokkurra hlaðvarpa

Á fimmtu hæðinni í Grófinni er Kompan, litla hlaðvarpsstúdíóið okkar. Aðstaðan þar er til fyrirmyndar, enda er setið um hana. Þar fara fram upptökur alls kyns hlaðvarpa sem eru sannarlega jafnfjölbreytt og þau eru mörg, frá þáttum um hjólreiðar yfir í brúðkaupsskipulag og allt þar á milli. Við tókum púlsinn á nokkrum Kompunotendum og spurðum út í framleiðsluna og hlaðvörpin þeirra. Eftirfarandi hlaðvörp eru tekin upp í Kompunni: 

Brúðkaup og smáatriðin

Brúðkaup og smáatriðin

Umsjón: Alina Vilhjálmsdóttir

Hver er Alina Vilhjálmsdóttir?

Ég skilgreini mig alltaf sem listræn sál með ástríðu fyrir smáatriðunum. Ég elska að gera vel við vini mína, gefa hugljúfar og fallega innpakkaðar gjafir, borða góðan mat og spjalla fram á nótt með gott rauðvín við hönd. Ég trúi því að hvert augnablik ætti að vera eitthvað til að halda uppá og gera einstakt með fallegri skeið og uppáhálds bollanum sínum. Enda hefur umhverfið mun meiri áhrif á mann en maður gerir sér grein fyrir og ég tek alveg eftir því í mínu starfi að það skiptir mig miklu máli að hafa fallegt í kringum mig til að færa manni innblástur og gefa manni gleði inn í daginn. Ég vinn sem brúðkaupsskipuleggjandi og stílisti sem var megindrifkraftur minn í því að stofna þetta hlaðvarp.

Segðu okkur frá hlaðvarpinu.

Ég ákvað að fara af stað með Brúðkaup og smáatiðin til þess að auka upplýsingaflæðið í þessum bransa. Það eru svo margir sem vita ekkert hvert þeir eiga að leita, hvað hlutir kosta eða jafnvel hvar þeir eiga að byrja, þegar kemur að því að skipuleggja brúðkaupið. Það er markmiðið með hlaðvarpinu mínu, að færa hlustendum upplýsingar, innsýn og skemmtilegar sögur sem geta hjálpað þeim í skipulaginu. Það er hugsað bæði fyrir fólk sem er að fara að gifta sig, en líka bara fyrir fólk sem elskar að spá í þennan bransa og langar að svipast um bakvið tjöldin með mér.

Hvers vegna brúðkaup?

Áhugi minn á brúðkaupum kviknaði þegar ég giftist yndislega manninum minum árið 2019. Ég elskaði að plana daginn sjálfan, finna sal, skreytingar, hanna boðskortin og ég endaði á að gera flest sjálf. Ég fann þó auðvitað geggjað teymi til að vera til aðstoðar sjálfan brúðkaupsdaginn og án þeirra hefði dagurinn ekki verið eins glæsilegur eins og hann var… en það sem situr ennþá í mér er hvað það var erfitt að finna hluti. Upplýsingaflæði var lélegt og úrvalið lítið. Það var svo margt sem mig langaði að gera en bara gat ekki gert vegna kostnaðar eða vegna þess að það var bara ekki til eða í boði á Íslandi. Þessi tilfinning var það sem sat í mér eftir daginn, ásamt því að óska þess að ég hefði getað klónað mig og fengið að njóta dagsins meðfram því að hlaupa um og redda hlutum á seinustu stundu. Það er ástæðan fyrir að ég fékk svona brennandi áhuga á þessu! Ég vil hjálpa pörum að líða ekki eins og mér leið á deginum mínum, auka úrval og þjónustu ásamt því að taka þennan bransa á næsta stig. Ég trúi því að eitt af skrefunum til að gera það sé að auka upplýsingaflæðið og það geri ég með þessu hlaðvarpi.

Hefur þú fengið viðbrögð hlustenda?

Já ég held að það sé skemmtilegasti parturinn, það er svo gaman að heyra að öll vinnan sem maður er að leggja í þetta sé að borga sig og að það sér fólk þarna úti sem elskar hlaðvarpið og bíður spennt alla þriðjudaga eftir nýjum þætti. Ég hef fengið að heyra að það hafi verið hjálplegt að hafa svona hlaðvarp sér til aðstoðar.

Byrjaðir þú á hlaðvarpinu þínu annars staðar og færðir þig svo yfir í Kompuna eða fórstu að gera hlaðvarp út af því að þú fréttir af aðstöðunni?

Ég byrjaði bara með venjulegan míkrafón heima en um leið og ég þurfti að taka viðtöl tók ég eftir því að það var mun erfiðara að gera það heima svo ég færði mig yfir í Kompuna. Einnig bý ég nálægt leikskóla og þar eru oft læti sem flækja upptökumálin heima. Ég finn að það er mun þægilegra að taka upp í Kopunni. Það er geggjað að bóka sér bara nokkra tíma og taka upp 2 til 3 þætti til að vinna og hafa svo bara tilbúna því maður veit aldrei hvað getur gerst í lífnu svo það er gott að vera hafa þættina tilbúna með góðum fyrirvara.

Hvernig er vinnutörnin þín í Kompunni?

Ég bóka tíma með góðum fyrirvara og bóka þá oft 2 til 3 tíma í senn, hvort sem ég er að fara að taka viðtal eða ekki. Ef um viðtal er að ræða reyni ég að hita upp sjálf með því að bóka tíma fyrr og taka jafnvel upp þátt sjálf áður en gesturinn mætir. Þegar hann kemur spjalla ég aðeins við gestinn áður en upptaka hefst til að hita upp og fá fólk til að líða þægilega. Þegar mér finnst fólk farið að slappa aðeins af set ég upptökuna af stað. Oftast spjöllum við í klukkutíma sem er góður tími að mínu mati. Eftir það fer gesturinn heim og ég tek upp smá inngang til að gefa fólki hugmynd af því sem það er að fara að hlusta á. Þegar því er lokið færi ég allt yfir í tölvuna mína, tek til og fer heim. Ef ég mæti bara til að taka upp ein er það svipað en þá er ég með nokkrar glósur sem ég fer yfir, plana hvaða röð ég ætla að taka upp í og hefst handa við að taka upp. Þegar ég er ánægð með allt fer ég heim, fæ mér kaffi og reyni að vinna efnið næsta dag.

Hvað með eftirvinnsluna? 

Ég nýt Kompuna bara til að taka upp og tel það vera góða nýtingu á tíma því að hljóðnemarnir og upptökukerfið er svo gott og síðan færi ég bara upptökurnar yfir í tölvuna mína og sett þáttinn saman þar því ég hef aðgang að góðum forritum til að vinna heima. Einnig verður maður svo oft þreyttur eftir nokkra tíma af því að taka upp að það getur verið gott að taka sér smá pásu og vinna efnið seinna.

Lína

Listin og lífið

Listin og lífið 

Hlaðvarp þar sem rætt er um bækur, ljóð, leikrit og kvikmyndir. 

Umsjón: Tanja Rasmussen og Ástrós Hind Rúnarsdóttir 

 

Hverjar eru Tanja og Ástrós?

Við erum tvær bókelskar konur úr Mosfellsbæ sem kynntust í vinnunni á bókasafninu þar. Tanja er tuttugu og fjögurra ára íslenskufræðingur og Ástrós er tvítugur bókmenntafræði- og ritlistarnemi við Háskóla Íslands. Við lesum og skrifum mikið og höfum báðar fengið texta eftir okkur birta á ýmsum stöðum.
 

Hvers vegna menningarhlaðvarp?

Við lifum og hrærumst í bókmenntum af öllum gerðum og höfum gert það frá því við vorum litlar. Það var eitthvað við þennan heim sem greip okkur báðar og okkur langar ekkert frekar en að deila því með öðrum hvað hann er dásamlegur.

Okkur finnst umfjöllun um bókmenntir og listir vera svolítið föst í ákveðnu formi, of akademísk og formleg til að höfða til dæmis til yngri kynslóða, og yfirleitt er fólkið sem fjallar um þær líka komið vel yfir þrítugt, jafnvel búið að vera í bransanum í áraraðir. 

Ætli hlaðvarpið sé ekki tilraun til mótvægis, við erum að reyna að skapa umfjöllun sem er óformleg og byggð á öðrum forsendum. Við segjum það sem við hugsum og það sem við finnum, oftast nær algjörlega óritskoðað. Þetta er samtal þar sem upplifun og tilfinningar eru í fyrirrúmi og engin krafa gerð á röksemdafærslur. Samtalið gæti alveg eins átt sér stað heima í stofu eða í strætó eða í sundi og hver sem er gæti verið hluti af því.
 

 Hvað með hlustendurna, vitið þið hverjir hlusta á hlaðvarpið?

Langstærsti hlustendahópurinn er fólk á aldrinum 18-27 ára sem er einmitt markhópurinn.
 

Hvernig er vinnudagurinn í Kompunni?

Þetta er oftast svona tveggja tíma törn; rúmlega klukkutími sem fer í að koma sér fyrir og taka upp þáttinn og svo tekur um 30-45 mínútur að hlaða upptökunni inn í tölvu, vinna úr henni og koma henni á streymisveitur.

Lína

Sósa fylgir með

Sósa fylgir með 

Umsjón: Brynjar Birgisson og Svanhvít Valtýsdóttir

Hver eru Brynjar og Svanhvít?

Við Svanhvít kynntumst fyrir 5 árum þegar við byrjuðum að vinna saman. Með tímanum urðum við betri og betri vinir og byrjuðum að hanga saman utan vinnu. Ég kem úr listaheiminum og hún úr heimi íþrótta en við náum af einhverri ástæðu rosalega vel saman og getum blaðrað við hvort annað marga klukkutíma í senn.

Hvers vegna matarhlaðvarp?

Við höfðum farið saman út að borða á ýmsa matsölustaði í kringum vinnustaðinn í nokkurn tíma þegar ég fékk þá flug í hausinn að vilja gera hlaðvarp. Ég var frekar lengi að finna hvað ég vildi gera í þeim efnum en þegar matarhlaðvarp kom upp þá var Svanvhít fyrsta manneskjan sem mér datt í hug að fá til að vera með mér í þessu.

Hvaðan kemur nafnið?

Við vissum strax að nafnið þyrfti að vera eitthvað annað en Matarhlaðvarpið eða Matarkastið. Svo við fórum og fundum einhverjar matartengda frasa og sendum á hvort annað. Ég held að Sósa Fylgir Með hafi verið fyrsti frasinn og endaði á að vera sá besti.

Hvernig byggið þið hlaðvarpið upp?

Hlaðvarpið skiptist í 5 hluta. Kynningu okkur og viðfangsefni, sögu staðarins og fyrri reynsla okkar af honum, athugum hvað Heilbrigðiseftirlitið hefur um staðinn að segja, hvað við fengum okkur að borða og í lokin hvort við mælum með staðnum eða ekki.

Hverjir hlusta á þáttinn ykkar?

Við erum ekki að stíla inn á einhvern sérstakan markhóp með þáttunum okkar en hingað til virðast karlmenn milli 28-34 ára vera sá hópur sem hlustar mest á okkur.

Eruð þið ánægð með Kompuna?

Já, við höfum tekið upp alla þætti af Sósa Fylgir með í Kompunni og ég sé ekki fram á að það muni breytast á næstunni. Það er mjög kósý að vera þarna. Það væri óskandi að öll söfn Borgarbókasafnsins fengju svona aðstöðu. Við tökum venjulega upp tvo þætti í einu. Hver þáttur er um það bil 20 mínútur, svo þarf að koma þáttunum á tölvuna í upptökuherberginu og svo yfir á mína tölvu. Ég tek svo tölvuna mína og hljóðvinn þættina heima, en ég hef smá reynslu af slíku, því ég hef verið að búa til stuttmyndir, auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Ég myndi áætla að hver 20 mínútna þáttur sé 80 mínútur að vera til frá upphafi upptöku þar til hann er tilbúinn. Það tekur svo líka tíma að finna hinar og þessar upplýsingar um staðina og svo auðvitað borða á staðnum.

Lína

Kóver: Af hverju vissi ég það ekki?

Af hverju vissi ég það ekki?

Umsjón: Bryndís Jónsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir

Hverjar eru Bryndís og Svanhildur?

Jafnaldra vinkonur aldar upp á Suðurnesjum. Þegar Bryndísi langaði að fara í hlaðvarpsgerð ræddi hún hugmyndina við Svanhildi sem hefur lengi starfað við fjölmiðla.

Hvernig varð hlaðvarpið til?

Af hverju vissi ég það ekki? kom til vegna sífelldra upphrópana Bryndísar þegar hún var að eiga við heilbrigðiskerfið í umönnun aldraðrar móður. Hvarvetna fannst henni vanta upplýsingar. Í þáttunum fjöllum við um málefni sem ekki eru á allra vitorði. Og af því að við vildum hafa þetta alvöru, þá fórum við á námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um hlaðvarpsgerð, létum hanna fyrir okkur lógó og semja stef.

Um hvað fjallið þið?

Vinsælustu þættir okkar eru sex þættir um breytingaskeiðið en við höfum fjallað um hugræna byrði, lesblindu, ofbeldi, umboðsmenn, ættleiðingar og hatursglæpi. Oftast fáum við til okkar gesti. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar þættirnir sem við tvær höfum bara talað saman en fjöldi þátta er að nálgast 40 (í maí 2022). Við höfum hins vegar leik með því að tala saman um sameiginlega reynslu okkar beggja, að tilheyra umönnunarkynslóðinni.

Hverjir hlusta?

Stærsti hlustendahópurinn eru konur á okkar aldri, en við bjóðum alla að viðtækjum. Við höfum ekki farið út í að óska eftir kostun á þáttinn eða auglýst hann sérstaklega nema á samfélagsmiðlum. Við erum þakklátar öllum okkar hlustendum og getum sagt með stolti að hlustendafjöldinn myndi fylla Eldborgarsal Hörpu tíu sinnum, aðeins nokkur sæti laus lengst uppi í rjáfri.

Takið þið alltaf upp í Kompunni?

Þegar upptökur hófust hittumst við miðja vegu milli búsetusveitarfélaga okkar og nýttum okkur Rabbrýmið í Bókasafni Hafnarfjarðar. Svo hafa málin þróast þannig að Kompan í Borgarbókasafni hentar okkur betur. Við ætluðum svo sem alltaf að græja okkur upp, en svo eru þessi aðstaða bókasafnanna svo frábær að við ákváðum að nýta okkur hana frekar. 

Hvernig fer þáttagerðin fram?

Við erum alltaf búnar að undirbúa þáttinn með samtali og skiptum svo með okkur verkum. Þegar við mætum í hljóðverið byrjum við á því að koma stefinu okkar í hljóðblandarann og taka stöðuna á styrkleika hljóðnema og annað slíkt. Svanhildur stýrir upptökunni. Við vistum svo þáttinn inn á usb kubb. Við klippum þáttinn alltaf til, tökum út óþarfa þagnir, mismæli, endurtekin orð og kæki sem kunna að verða ýktir við upptökur. Sú vinna fer fram í okkar eigin tölvum með forritinu Audacity.

Lína

Kóver: saumaklúbburinn

Saumaklúbburinn

Í saumaklúbbnum er talað um lífið eins og það er og allt þess á milli. Hlátur, grátur, fliss og glens.
Umsjón: Karlotta Ósk Jónsdóttir og Fanney Marín Magnúsdóttir

Segið okkur aðeins frá hlaðvarpinu, um hvað fjallið þið?

Í saumaklúbbnum fjöllum við um alls konar málefni sem tengjast þvi að vera kona, móðir, systir og dóttir. Við ræðum um heilsu, lífsstíl og bara almennt um okkar líf og það sem við erum að glíma við hverju sinni. Við ræðum bara það sem rætt er í saumaklúbbum, allt milli himins og jarðar.

Kemur þetta að einhverju leyti í staðinn fyrir hefðbundinn saumaklúbb?

Karlotta: Kannski fyrir okkur Fanneyju því við eigum þarna gæðastund hvor með annarri reglulega. Svo borðum við alltaf saman eftir upptökurnar. 

Fanney: Þessi stund og þessi tími sem við Karlotta erum að græða saman með þessu ævintýri er ómetanlegur. Við erum búnar að vera vinkonur í mörg ár og tilheyrum sama saumaklúbb sem hittist reglulega yfir árið. Hlaðvarpið Saumaklúbburinn er aaaaaðeins stilltari, en engu að síður þá komum við til dyranna eins og við erum klæddar og viljum að fylgjendur upplifi sig sem part af Saumaklúbbnum og þeirri stemningu sem við erum að reyna skapa. 

Karlotta: Munurinn er sá að almennt eru ekki að koma gestir eða óviðkomandi í saumaklúbb en við fáum til okkar allskonar gesti sem geta frætt okkur betur um ýmis málefni.

Fanney: Við viljum samt alltaf að stemningin sé svona á spjall - vinkonu nótunum, þannig að hlustendur upplifi ekki að þeir séu að sitja einhvern fyrirlestur. Fylgjendur koma svo líka með hugmyndir að gestum, senda okkur spurningar og pælingar varðandi það sem við fjöllum um hverju sinni og eru ófeimnir við að grípa okkur í spjall þegar við hittumst til dæmis bara í sundi eða í búðinni. Það finnst okkur æðislegt! 

Hvernig kom það til að þið fóruð að taka upp í Kompunni?

Við byrjuðum upptökurnar í aðstöðu sem við höfðum í Keili en þar sem það er á Suðurnesjum og stundum erfitt fyrir gesti að koma þangað þá nýttum við aðstöðuna í Kompunni til þess að taka á móti þeim gestum. Okkur fannst svo mikil snilld hvað það var auðvelt að komast að hjá Kompunni og hvað bókunarferlið var auðvelt.

Takið þið hlaðvarpið alltaf upp í Kompunni?

Nei við erum núna með okkar eigin græjur og tökum upp í stofunni heima hjá Karlottu en ef svo bæri við þá myndum við hiklaust nýta okkur aftur þessa frábæru aðstöðu sem Kompan er.

Hvað með eftirvinnsluna? Hvar fer hún fram?

Karlotta klippir þættina okkar í Garageband akkúrat núna og hefur það gefist vel. Svo er allskonar föndur líka í kringum samfélagsmiðlana sem þarf að sinna, svo sem að auglýsa þætti, setja inn hljóðklippur og tilvitnanir úr þáttunum inn á Instagram. 

Lína

Kjaftæði

Kjaftæði!

Spjall- og leikjaþáttur þar sem umsjónarmenn fá fólk til að ljúga upp í opið geðið á sér. Gestir þáttanna segja sögur úr sínu lífi og lauma einni lygasögu með. Umsjónarmenn spyrja síðan gestina spjörunum úr til að komast að því hvað er sannleikur og hvað er kjaftæði.

Umsjón: Dagur, Viktor og Palli

Hverjir eru Dagur, Viktor og Palli?

Palli, Viktor og Dagur eru þrír vitleysingar sem hafa stundað virk fíflalæti saman frá því í framhaldsskóla. Þeir stofnuðu skophópinn DÉLÍTAN til þess að taka þátt í Músíktilraunum 2017 undir því yfirskyni að koma Degi í hljómsveit þrátt fyrir að hann kynni ekki á neitt hljóðfæri og hefði aldrei stundaði tónlistarnám. Þar að auki var þetta rapphljómsveit en enginn meðlimanna kunni að rappa. Eftir að hafa valdið stórfenglegum usla í Hörpu það kvöld þróaðist Délítan yfir í almenna skemmtigrúppu sem framleiddi tónlist, myndbönd og aðra vitleysu.

Þetta er hálfgerður leikur, ein lygasaga sem þið eigið að „spotta“, hvernig hefur það gengið?

Stundum erum við mestu lygabanar og „spottum“ lygina á færi en öðrum stundum er sem við séum eins auðtrúa og þeir gerast. 

Hver er eftirminnilegasta lygasagan?

Þegar Hugleikur Dagsson reyndi að telja okkur trú um að hann hefði komið á viðskiptasamning milli íslensks hestasala og Annie Lennox, söngvara Eurythmics.

Hvernig veljið þið gestina ykkar?

Palli sendir skilaboð á 78% af þjóðinni og þeir sem svara koma.

Hverjir hlusta á Kjaftæði?

Aðalhlustunarhópur okkar er fólk af öllum kynjum á aldrinum 18 til 34 ára. Svo erum við með sterkan hlustunarhóp á aldrinum 45 upp í 60 ára.

Hvað er skemmtilegast við að gera hlaðvarp?

Klárlega besti parturinn við að taka upp hlaðvarpið er að hafa afsökun til að hittast vikulega og vera með asnaskap og fíflalæti. 

Hvers vegna völduð þið að taka upp í Kompunni?

Viktor var að spranga um myndasögudeildina á fimmtu hæð og sá Kompuna fyrir slysni. Hann sendi umsvifalaust skilaboð á Palla og Dag og sagði þeim að nú hefðu þeir enga afsökun lengur. Tveimur vikum síðar var fyrsti þátturinn af Kjaftæði tekinn upp.

Takið þið hlaðvarpið alltaf upp í Kompunni?

Já, hlaðvarpið er ekki tekið upp nema að Kompan sé laus.

Hvernig er vinnutörnin í Kompunni?

Við mætum rétt fyrir hádegi, setjum upp upptökugræjurnar, náum kannski að hita upp ef við mætum nógu snemma og svo kemur fyrsti gesturinn vanalega rétt upp úr tólf. Tökur taka um klukkutíma og svo byrjum við að flytja efnið yfir á tölvuna og fáum okkur þá venjulega að borða. Gestur númer tvö kemur svo um tvöleytið og þá er leikurinn endurtekinn. Svo flytjum við seinni gögnin og förum heim.

Hvað með eftirvinnsluna, hvar fer hún fram?

Hún fer að öllu leyti fram heima í stofu hjá Viktori þar sem hann púslar saman upphafsstefi, upphafsbút og klippir þáttinn saman.

Lína

Karlakofinn

Karlakofinn

Umsjónarmenn Karlakofans eru vinir og í hlaðvarpinu spjalla þeir saman um allt og ekkert. Tekist er á tæpitungulaust. 

Umsjón: Arnmundur, Matthías, Úlfur og Magnús 

Segið okkur frá umsjónarmönnum Karlakofans.

Arnmundur er sá sem klippir þættina og setur þá á netið. Magnús er mikill tölvuleikjaaðdáandi, sérstaklega þeirra sem framleiddir eru af Nintendo og hann hefur líka áhuga á teiknimyndum. Matthías er tæknimaðurinn í hlaðvarpinu og er áhugamaður um arkitektúr og loks er það Úlfur sem er grínari og finnst gaman að teikna.

Hvernig fer hlaðvarpið fram?

Hlaðvarpið er frjálst spjall, venjulega erum við með nokkur umræðuefni sem hinir vita ekki af fyrr en í upptökunni. Þegar hálftími er liðinn af spjalli þá byrjum við með fasta dagskrárliði sem eru til dæmis sögustundin okkar, leikskólavinaleikurinn og stuðmannahornið.

Hverjir hlusta á hlaðvarpið?

Það er aðallega fólk sem við þekkjum sem hlustar, en markhópurinn er ungmenni, en fólk á öllum aldri getur hlustað.

 

Hvernig undirbúið ykkur fyrir þáttinn? 

Það er ekki mikill undirbúningur fyrir þáttinn, en við göngum saman niður Laugaveginn og oftast er einn af okkur kominn með spurningar fyrir leikskólavinaleikinn.

Takið þið hlaðvarpið alltaf upp í Kompunni?

Já, nema í tvö skipti þegar við lentum allir í sóttkví og neyddumst til þess að taka upp á fjarfundi. Okkur hafði lengi langað að byrja með hlaðvarp en hugmyndin varð ekki að veruleika fyrr en að við heyrðum að aðstöðunni hérna.

Hvernig er vinnutörniní Kompunni? 

Við setjumst niður og spjöllum í tæpan klukkutíma og svo förum við í tölvuna, hlöðum þættinum niður og sendum okkur á Plus Transfer.

Hvað með eftirvinnsluna, hvar fer hún fram? 

Arnmundur klippir þættina á iMovie, setur þáttin á YouTube og Anchor þar sem hægt er að setja þættina á allar helstu veitur. Þættirnir koma oftast út samdægurs, á sunnudagskvöldum.

Lína

Tindur

Tindur

Umsjón: Tindur hjólreiðafélag

Hlaðvarp hjólreiðafélags, hvað kom til?

Tindur er stærsta hjólreiðafélagið á Íslandi og eru um 300 manns aðilar að Tind. Við eigum ekki inni í neinni félagsaðstöðu og svo er veðrið á Íslandi þannig að við stöldrum sjaldan við, lengur en þörf er á, til að spjalla almennilega, auk þess sem við stundum mismundandi hjólreiðar og mishratt. Við fundum fyrir því eftir sumar 2021 að það vantaði félagsandann í félagið þar sem það hafði verið minna af viðburðum og samveru og færri tækifæri til að kynnast nýjum félagsfólki. Um haustið sama ár fór fyrsti hlaðvarpsþátturinn í loftið. 

Um hvað ræðið þið?

Kemur kannski ekki á óvart en rauði þráðurinn í hlaðvarpinu eru hjólreiðar. Við spjöllum um félagsstarfið, væntingar til komandi tímabils og framtíðarinnar. Við erum ekki með fasta umsjónarmenn, það er ein sem sér um að bóka Kompuna, mætir með þáttastjórnanda hverju sinni. Umsjónarmenn hverju sinni þurfa ekki að hafa neina þekkingu á búnaði, bara áhugaverðar spurningar.

Við erum ekki með neina reglu á hversu oft eða sjaldan hlaðvarpið kemur út. Í Tind er starfandi ritnefnd sem hefur verið dugleg að setja inn nöfn af viðmælendum og þá kemur fljótt á eftir einhver sem sem langar að stýra þeim hlaðvarpsþætti.

 

 

Takið þið hlaðvarpið alltaf upp í Kompunni? 

Já, frá upphafi. Kunnum mjög vel við okkur í Borgarbókasafninu. Aðstaðan er mjög góð og vinalegt starfsfólk. Hingað til höfum við verið með einn þáttastjórnanda og einn viðmælanda auk umsjónarmanneskju sem sér um upptöku og eftirvinnslu. Umsjónarmanneskjan mætir og gerir allt tilbúið, passar að hljóðnemar séu rétt stilltir og setur svo á upptöku. Hún yfirgefur svo herbergið og samtalið byrjar. Þegar viðmælendur hafa lokið spjallinu þá stöðva þeir upptöku. Umsjónarmannsekjan sér þá um að taka gögnin, hreinsa tækið og ganga frá búnaði. Við höfum haft þennan háttinn þar sem við erum ekki með fasta þáttastjórnendur til þess að fólk haldi ekki aftur að sér að sjá um viðtöl vegna tæknimála.

Hvað með eftirvinnsluna? Hvar fer hún fram?

Eftirvinnslan er einföld, við erum með lagastef sem er upphafs- og endastef hjá okkkur sem við bætum við. Hægt að finna mikið af fínum upphafsstefum á vefsíðum sem kosta lítið eða ekkert. Við klippum ekki viðtölin okkar. Við aðstoðum þáttastjórendur að byggja upp viðtalið sitt eins og við þekkjum með upphafi, miðju og endi. Síðan reynum að hafa hlaðvarpið 40 til 60 mín, alls ekki lengra. 

 

 

Flokkur
UppfærtMánudagur, 16. október, 2023 15:17