Einar Áskell og Gunilla Bergström

Einar Áskell er vinur minn

Einar Áskell er skáldsagnapersóna sem stígur inn í vitund og alla skynjun lesandans og ferðast með honum allar götur síðan, hvað sem tímanum líður. Hann er ekki bara persóna í bók, hann verður beinlínis hluti af fjölskyldunni. Í það minnsta er hann ógleymanlegur, verulega hversdagslegur og draumkenndur í senn. Einar er úr þessu létta og grallaralega efni og pabbi hans, sem er ekki síður dásamleg persóna, er værukær, reykjandi pípu með dagblað í hönd. Hjá þeim virðist tíminn standa í stað, þeir búa á sama stað, ganga í sömu fötum og lífið er alveg ágætt í öllum uppbrotum hversdagsleikans. Lesendur, bæði börn og fullorðnir, geta alltaf fundið griðastað í sagnaheimi Gunillu Bergström og tekist á við hversdagsleg ævintýri, gleði og ótta með Einari Áskeli. Það eru ekki síst teikningarnar sem skapa  þessar sterku og eftirminnilegu persónur í bókunum um þá feðga og félaga.

 

Góða nótt, Gunilla

Gunilla Bergström, höfundur bókanna um Einar Áskel, lést þann 25. ágúst 2021. Við lesendur þökkum henni dýrmætar gjafir, en hún bæði skrifaði og myndskreytti bækurnar um Einar Áskel. Fyrsta bókin um Alfons Åberg, eins og hann kallast á frummálinu, kom út í Svíþjóð árið 1972. Bækurnar voru gefnar út í íslenskri þýðingu Sigrúnar Árnadóttur (1927-2021) frá árinu 1980. Góða nótt, Einar Áskell heitir sú fyrsta um sænsku feðgana, sem urðu alls 26 talsins, þýddar á fjölda tungumála.

Hér má taka frá bækur Gunillu Bergström

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 26. ágúst, 2021 18:57