Bókmenntavefurinn | Með lungunum öndum við

Skáldsagan Lungu hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í ár í flokki skáldverka, eins og flestum er kunnugt. Þetta er önnur skáldsaga höfundarins Pedro Gunnlaugs Garcia og hefur hann vakið athygli fyrir að slá nýjan og ferskan tón í íslenskum bókmenntum, en fyrsta bók hans Málleysingarnir kom út árið 2019. Vera Knútsdóttir skrifar um Lungu á Bókmenntavefnum og segir bókina hreint út sagt frábæra, heillandi, að hún iði af frásagnargleði og áhugaverðum pælingum um tengsl, uppeldi og erfðir.

Og þessa alþjóðlegu sögu með alþjóðlegu persónum spinnir höfundur af svo miklu áreynsluleysi að það er líkt og að sagan hafi flætt frá honum í einum stöðugum straumi. Og lesandinn lætur sig falla í strauminn og flýtur með, nýtur þess að kynnast sögupersónum á ólíkum æviskeiðum þeirra, kynnast fjölskylduflækjum þeirra, jafnt og hinum ýmsu kunnuglegu sálarflækjum sem skapa persónuleika hvers og eins. Frásagnargleði á vel við til að lýsa skrifum höfundar og birtist ekki síst í þeim furðufrásögnum sem allt í einu poppa upp í sögum af ósköp venjulegu fólki. 

Vera Knútsdóttir, Bókmenntavefurinn

Við hvetjum lánþega og lesendur til að lesa Lungu og rýni og umfjöllun um bækur á Bókmenntavefnum!

UppfærtMiðvikudagur, 18. desember, 2024 10:13
Materials