Bókmenntavefurinn | Listin, ástin og vísindin á umbrotatímum

Þetta eru sannarlega aðlaðandi pælingar um mátt lista og bókmennta á umbrotatímum. Að vissu leyti hálfútópískar og ég velti fyrir mér hvort höfundur bregði hér á leik með tvenndarparið útópía og dystópía; þar sem útópísku hugmyndirnar um bókmenntir mynda andstæðu eða togstreitu við dystópískar aðstæður söguheimsins.

Bókmenntavefurinn, Vera Knútsdóttir skrifar um Ljósagang eftir Dag Hjartarson

Ljósagangur eftir Dag Hjartarson er ljóðræn vísindaskáldsaga sem gerist í Reykjavík þar sem ógnin sem steðjar að sögupersónunum er hljóðmengun eða truflun sem kölluð er niður aldanna. Svo virðist sem niðurinn sé helst bundinn við göngubrú í Vatnsmýrinni og hefur þetta ólík áhrif á sögupersónur og samfélag borgarinnar. Fólk sækir í auknum mæli í bókmenntir og listir þegar lífið verður yfirþyrmandi eða virðist vera að gliðna í sundur segir í sögunni. Sala ljóðabóka tekur stökk í kjölfar niðsins og lífið verður skáldlegra sem gleður suma á meðan aðrir finna til depurðar og fyrir auknum kvíða. Á Bókmenntavefnum má lesa rýni Veru Knútsdóttur í bókina, en hún segir skáldsöguna meðal annars forvitnilega og heillandi  - að hér sé höfundur sem sé umhugað um samfélag sitt og tungumál.

Lesið ritdóminn í heild sinni á hinum síkvika Bókmenntavef.

UppfærtMiðvikudagur, 18. desember, 2024 10:13