Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi (1942-2016)

Bókmenntavefurinn | Ingibjörg Haraldsdóttir

UPPHAF

Ég fæddist í gráu húsi
í bláhvítu landi við ysta haf
einn októberdag fyrir löngi

í landinu því var skógur
mikill og forn og dimmur
og draugar riðu þar hjá

á kvöldin kom fuglinn í fjörunni
og söng mér ódáinsljóð
meðan öldur brotnuðu á klettum

um húsið fór gustur af sögum
og lygasagan um heiminn og mig
hófst þar einn októberdag . . .

Ingibjörg Haraldsdóttir. Úr ljóðabókinni Þangað vil ég fljúga, frá árinu 1974.

 

80 ár eru frá fæðingardegi rithöfundarins og þýðandans Ingibjargar Haraldsdóttur, en hún fæddist í Reykjavík 21. október 1942. Það má fræðast um líf, störf og verk Ingibjargar á Bókmenntavefnum. Hún stundaði nám við Kvikmyndaskóla ríkisins í Moskvu og lauk Mag. art prófi í kvikmyndastjórn 1969 og starfaði m.a. sem aðstoðarleikstjóri við leikhúsið Teatro Estudio í Havana á Kúbu frá 1970 – 1975. Þekktust er Ingibjörg fyrir ljóð sín og þýðingar úr rússnesku og spænsku, hún var afkastamikill þýðandi, þýddi fjölda leikrita og t.d. verk eftir Dostojevskí og Búlgakov. Fyrsta ljóðabók Ingibjargar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974, en hún gaf út sjö ljóðabækur, þar af tvær safnbækur, og hafa ljóð hennar verið þýdd á ungversku, þýsku, lettnesku, litháísku, búlgörsku, rússnesku, slóvakísku, ensku og Norðurlandamál. Ingibjörg hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV fyrir þýðingu sína á Fávitanum eftir Dostojevskí og Íslensku þýðingarverðlaunin 2004 fyrir Fjárhættuspilarann eftir sama höfund. Þá var hún tvisvar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 1993 og 2004.

Ingibjörg lést 7. nóvember árið 2016. 


FYRIR ÞIG
í minningu Nínu Bjarkar Árnadóttur

Þar sem vegurinn byrjar
er engill til verndar

það vantar á hann
annan vænginn
og höndin sem blessar
vegfarandann
er brotin

engu að síður
legg ég óttalaus af stað

á leiðarenda
lítil kapella
þar kveiki ég
á hvítu kerti
fyrir þig sem fórst
og gleymdir 
að kveðja

ég sem á engan guð
verð að treysta því
að guð þinn
taki mark á kertinu mínu

Ingibjörg Haraldsdóttir
Úr ljóðabókinni Hvar sem ég verð, frá árinu 2002.

UppfærtMiðvikudagur, 18. desember, 2024 10:13