Gyrðir Elíasson, rithöfundur

Bókmenntavefurinn | Gyrðir Elíasson

„Nærvera Gyrðis Elíassonar í heimi íslenskra bókmennta er jafn áþreifanleg og hún er hljóðlát. Þó höfundurinn sjálfur skeyti lítið um athygli og tannhjól markaðsaflanna eru verk hans þess eðlis að þau raðast sjálfkrafa í efstu hillu – hafin yfir tíma og rúm. Staðreyndin er einfaldlega sú að í landslagi skáldskaparins er Gyrðir Elíasson hluti af himninum; stöðugur, síbreytilegur, sitt eigið frumefni. Í nærri fjóra áratugi hefur hann gefið og gefið – afköstin og gæðin nær undraverð – og fengist við öll form skáldskapar auk ómetanlegra ljóðaþýðinga. Allt virðist leika í höndum hans en list hans felst kannski ekki síst í því að geta eimað bæði efni og orð í fagurfræðilegan töfradrykk þar sem heildin er stærri en summa einstakra þátta. Stíll hans er einstakur, hann er skáld sem lesandinn þekkir á einni málsgrein, og tök hans á tungumálinu slík að óhætt er að segja að fáir eru betur skrifandi á íslenska tungu í dag. Fyrir verk sín hefur hann verið tilnefndur til virtra verðlauna, bæði íslenskra og erlendra, en nú nýlega hlaut þýðing á skáldsögu hans Sorgarmarsinum tilnefningu til Médicis-verðlaunanna í Frakklandi.“

Á þessum orðum hefst ný og ítarleg yfirlitsgrein um höfundarverk Gyrðis Elíassonar eftir Hrafnhildi Þórhallsdóttur á Bókmenntavefnum. Greinin nefnist, Það sem lifir tímann er mennskan, og spannar ljóð, smáprósa, smásögur og skáldsögur skáldsins, 21 skáldrit útgefin á árunum 2000-2022. Fjallað er um lífríki náttúrunnar sem iðar í andstöðu við stöðnun og bælda skapgerð persónanna, hvernig húmor og óhugnaður læðast um hönd í hönd. Að oftar en ekki gætir dulúðar og áhrifin séu jafnvel ölvandi.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni. Smellið á 2000-2022 í valmyndinni. 

Hans bestu sögur minna á þurrkuð teblóm, lögð í vatn svo þau þenjast út og bera með sér dulúðlegan angan.

Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Bókmenntavefurinn

Sjálfur skrifar Gyrðir í pistli um skrif sín og skáldskaparlist á Bókmenntavefnum, frá árinu 2000: „Fyrr á öldum runnu list og trú í sama farvegi. Það er eiginlega ekki fyrr en á síðustu öld að leiðir skildu á yfirborðinu, og listin fór að renna í átt til vísindanna, gegnum natúralismann og realismann. En í innsta eðli sínu hefur listin alltaf staðið nær trúnni, dulhyggjunni en vísindunum.“

Fyrir smásagnasafnið Milli trjánna (2009) hlaut Gyrðir Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011. Dauðinn er nálægur í frásögnum sem og öll mannleg tilvist. Náttúran leikur lykilhlutverk í bókinni og birtist á köflum sem dularfull og yfirþyrmandi, skrifar greinarhöfundur, en bætir við að náttúran sé þó fyrst og femst heilandi afl í sögunum.

Innra lífið er ávallt í miðdepli í skrifum Gyrðis. Tengslaleysi er nefnt sem sterkur þráður þar sem nánd er brothætt fyrirbæri jafnvel draumsýn. Um sögumenn skáldsagna hans segir m.a.:

Sköpun og eyðing virðist tvær hliðar á sama teningnum. Sköpunin, þráin eftir hinu fagra, er leið út úr þeim veruleika sem sögumennirnir finna sig ekki í, en sú leið er hvorki bein né breið og langt í frá því að vera sársaukalaus. Ferðalag þeirra allra liggur inn í einhvers konar upplausn, færslu frá einum veruleika til annars [...]

Bókmenntavefurinn

Í yfirlitsgreininni er einnig rýni í nýútkomnar bækur Gyrðis: Þöglar myndir og Pensilskrift. Þar segir meðal annars að ríkjandi þema sé svikult minni sem hefur verið mikið í umræðunni í tengslum við bókmenntir og tráma síðustu ár. „Í sjálfu sér má segja að tráma sé þema út af fyrir sig í skáldskap Gyrðis í ljósi þess að tengsl og tengslaleysi er síendurtekið umfjöllunarefni í bókum hans [...].“ Frásagnarfyndni nýtur sín einnig í mörgum myndum sem dregnar eru upp í Pensilskrift, og einnig er náttúran  bakgrunnur tilvistar eins og í mörgum verka hans og háski við hvert fótmál. 

Í svo knöppu formi vegur hið ósagða engu minna en það sem sagt er berum orðum og því krefst stuttur prósi, öfugt við það sem ætla mætti, mikils af athygli lesandans. 

Bókmenntavefurinn

Gyrðir er höfundur sem nýtir sér aðferðir ljóðsins í öllum sínum skrifum, segir Hrafnhildur, að þegar lesandi hafi lokið við bók eftir Gyrði hafi hann orðið vitni að einhverju merkilegu, snortinn töfrum. Í lokaorðum er fögrum orðum farið um heildaráhrif og mikilvægi verka Gyrðis Elíassonar fyrir agnarsmátt málsvæði sem íslenskan er, skáldskapur hans er:

[...] tímalaust smyrsl í sammannlegt sár.

Bókmenntavefurinn

Við hvetjum fólk til að lesa greinina í heild sinni á Bókmenntavefnum (undir ártalinu 2000-2022) og gefa sér góðan tíma, hún snertir á mikilvægi skáldskapar í heimi hér. 

Hér að neðan gefur að líta brot af skáldverkum Gyrðis Elíassonar sem við mælum auðvitað með að þú, lesandi góður, lánir á safninu og leyfir einstökum skáldskaparheimi að umvefja þig í skammdegismyrkrinu.

 

 

UppfærtMiðvikudagur, 18. desember, 2024 10:13
Materials