Bókmenntavefurinn | Hjartnæm hinsegin ástarsaga
Hjartastopp er saga fyrir unglinga sem er jafnframt myndasaga og hinsegin ástarsaga. Sagan er hluti af myndasöguseríu sem er bæði skrifuð og teiknuð af breska höfundinum Alice Oseman, kom fyrst út árið 2019 og nú í ár í íslenskri þýðingu Erlu Elíasdóttur Völudóttur. Þorvaldur S. Helgason rýnir hér í fyrstu tvö bindi sögunnar en Netflix framleiddi vinsæla sjónvarpsþáttaseríu eftir bókunum.
Charlie er eins konar 21 aldar fulltrúi „nördanna“ svo seilst sé í staðalmyndir unglingabókmennta og er auk þess opinberlega samkynhneigður í mjög svo heterónormatívu umhverfi drengjaskólans sem gerir hann tvöfalt jaðarsettan. Við upphaf sögunnar á Charlie í leynilegu ástarsambandi við Ben Hope, hrokafullan 11. bekking sem notar Charlie eingöngu til að svala fýsnum sínum en hefur engan áhuga á alvöru sambandi, enda er hann sjálfur í skápnum.
Þorvaldur S. Helgason, Bókmenntavefurinn
Sagan segir frá Charlie og Nick, frá því þeir kynnast, fella hugi saman og verða að ástföngnu pari og lesendur fá innsýn inn í tilfinningalegan rússíbani sem fylgir og hefur áhrif á sjálfsmyndina. Bókmenntarýnir segir framvinduna fremur hæga en þó sé krúttlegt að fylgjast með ástum unglinganna. Um er að ræða nokkuð raunsanna lýsingu á því hvernig er að vera ástfanginn unglingur í menntaskóla, en einnig er fjallað um mótlæti og hómófóbíu sem persónurnar verða fyrir. Þorvaldur segir söguna hjartnæma og vandaða en þó séu aðalpersónurnar of fullkomnar, góðar og án breyskleika til að verða virkilega áhugaverðar. En það er fagnaðefni að fá þýðingu á hinsegin myndasögu fyrir unglinga á íslensku.
Teiknistíll Oseman minnir að sumu leyti á japanskar myndasögur - manga, en teikningar hennar eru allar svarthvítar og dregnar með skýrum línum, líkt og venjan er í manga. Þá hefur einnig myndast rík hefð í Japan fyrir myndasögum sem fjalla um hinsegin ástir karlmanna en eru skrifaðar sérstaklega fyrir konur af konum, þessi undirgrein manga er kölluð yaoi eða Boys’ Love [...]
Þorvaldur S. Helgason, Bókmenntavefurinn
Fylgist með nýjum ritdómum á Bókmenntavefnum í vetur!