Lesandinn | Ari Brynjarsson
Lesandi vikunnar er Ari Brynjarsson. Ari var sumarstarfsmaður í Árbæ en okkur líkaði svo vel við hann að við ákváðum að leyfa honum að vinna áfram á safninu, aðallega vegna þess að hann les furðusögur þar sem órangútar sem bókaverðir koma við sögu.
"Litbrigði galdranna er ein af mínum uppáhaldsbókum eftir minn uppáhaldshöfund. Þessi bók kynnti mig fyrir hinum frábæra Discworld heimi sem enski höfundurinn Terry Pratchett skapaði og er sögusvið 41 bókar eftir hann. Þessar sögur gerast allar í heimi sem er flatur eins og diskur og flýtur um geiminn á bakinu á gríðarstórri skjaldböku. Á þessum diski búa allskonar skringilegar verur og ennþá skrítnara fólk. Þar má finna klassískar verur úr öðrum fantasíum líkt og galdrakarla, nornir og dverga, en einnig rekst maður á aðra kynlega kvisti líkt og skapilla ferðakistu og órangúta sem starfar sem bókavörður.
Í þessari fyrstu bók í seríunni kynnist maður galdranemanum Rincewind sem fær það verkefni að vera leiðsögumaður fyrir fyrsta túrista Diskheimsins og lenda þeir í ýmsum ævintýrum sem kynna mann vel fyrir heiminum. Kímnigáfa Pratchett er það besta við bækurnar og þó að það sé yfirleitt alvarlegur undirtónn í sögunum er aldrei langt í grínið að atið hjá honum.
Ég mæli eindregið með þessum bókum ef fólk vill skemmtilega lesningu."