Jóladagatal | Stikkprufur úr flóðinu 2023

Við endurtökum leikinn frá því síðustu ár og bjóðum nokkrum höfundum og þýðendum sem eiga bækur í flóði ársins í heimsókn á safnið (að þessu sinni í Spöngina). Eitt af öðru koma þau til byggða og kynna nýútgefnar bækur sínar, hvert með sínu nefi.

Fylgist vel með hér eða á Facebook í desember, alla daga fram að jólum!

23. desember

Okkur þykir sérlega skemmtilegt að deila þessari síðustu stikkprufu ársins, því Helen Cova hélt útgáfuhóf fyrir báðar bækurnar sínar á Borgarbókasafninu, en sjálf býr hún á Ísafirði.

Ljóð fyrir klofið hjarta - ljóðabók - og barnabókin Svona tala ég - gjörið þið svo vel og GLEÐILEG BÓKAJÓL!

22. desember

Jæja nú fer aldeilis að líða að jólahátíðinni og ef þið eruð ekki búin að veiða reykta laxinn enn þá fer hver að verða síðastur. Sigurður Héðinn veit allt um málið og gægist út um jólagluggann, tveimur dögum fyrir jól!

 

21. desember

Álfar koma við sögu í mörgum þjóðsögum sem gerast á jólanótt. Hjörleifur Hjartarson gægist úr glugga dagsins með bók sína og Ránar Flygenring, Álfar.

 

20. desember

Fjórir dagar til jóla! Embla Bachman gægist út um jólaglugga dagsins með bókina sína Stelpur stranglega bannaðar! Yngsti jólasveinninn og yngsti höfundur sem tilnefndur hefur verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

 

19. desember

Fimm dagar til jóla. Eða hvað? Er það nákvæmt? Nákvæmar tímamælingar koma sannarlega við sögu í bókinni sem leynist í glugga dagsins. Hákon J. Behrens kynnir bók sína Davíð Wunderbar.

 

18. desember

Söguleg spennusaga? Sakamálasaga? Draugasaga? Ófeigur Sigurðsson gægist út úr jóladagatalsglugga dagsins, ásamt fylgju Þuríðar formanns, en skáldsagan Far heimur far sæll er bók dagsins. Við skulum heyra Ófeig segja frá þessari forvitnilegu bók, nú þegar aðeins sex dagar eru til jóla.

 

17. desember

Ragnar H. Blöndal arkaði niður úr fjallinu ásamt Askasleiki í morgun, með skáldsögu sína Maðurinn með strik fyrir varir. Sú fjallar um náunga sem býr að sárri reynslu en er hamingjusamur í dag. Við skulum heyra hvað Ragnar hefur um bókina að segja.

 

16. desember

Enn styttir daginn og dimmir ansi bratt. Ingi Markússon er jólahöfundur dagsins og gægist út um gluggann með Svikabirtu, framhald af Skuggabrúnni sem kom út í fyrra við góðan orðstír. Við skulum heyra hvað hann hefur að segja!

 

15. desember

Það er líklega nóg að gera í Smáralindinni um þessar mundir. ys og þys og jólastress ... en hafið þið orðið vör við draugagang í verslunarmiðstöðinni? Sumt fólk sér þar dularfullar verur, strák og stelpu, og þann 10. október á hverju ári, á afmæli Smáralindar, fer eitthvað undarlegt á stjá …

Brynhildur Þórarinsdóttir gægist út um gluggann í dag með unglingabókina Smáralindarmóri

 

14. desember

Tíu dagar til jóla. Það er einkennileg tilfinning að undibúa jólahátíðina, sem á að minna á frið og kærleika, í skugga þeirra hörmunga sem eiga sér stað um þessar mundir í heiminum. Hvað þarf til að breyta heiminum? Þegar stórt er spurt er stundum fátt um svör.

Í dag kynnir Ingibjörg Valsdóttir fyrir okkur bók sína Að breyta heiminum.

14. desember. Tíu dagar til jóla. Það er einkennileg tilfinning að undibúa jólahátíðina, sem á að minna á frið og kærleika, í skugga þeirra hörmunga sem eiga sér stað um þessar mundir í heiminum. Hvað þarf til að breyta heiminum? Þegar stórt er spurt er stundum fátt um svör. Í dag kynnir Ingibjörg Valsdóttir fyrir okkur bók sína Að breyta heiminum.

 

13. desember

Verkamannavirkjanafurðusaga. Er það orð ársins?

Ellefu dagar til jóla og daginn styttir á skerinu okkar kalda (sem reyndar er óvenjuhlýtt miðað við árstíma) - sem Alexander Dan byggir sinn ímyndaða heim Hrímland á. Alexander hefur undanfarin ár haslað sér rækilega völl í furðusagnaheiminum - víða um heim - og hér les hann upp úr bók sinni Seiðstormur.

12. desember

Tólf dagar til jóla og fyrsti jólasveinninn kom til byggða í nótt. Samferða honum var Kári S. Kárason, með sína fyrstu bók Hinum megin við spegilinn, smásagnasafn sem bar sigur úr býtum í handritakeppni Forlagsins, Nýjar raddir, fyrr í ár. Heyrum hvað leynist bak við spegilinn!

 

11. desember

Þrettán dagar til jóla, Stekkjastaur á leiðinni og í dag er Bergþóra Snæbjörnsdóttir komin til byggða með skáldsögu sína Duft, þar sem fjallað er um söfnuð fallega fólksins... Hér sáldrar hún örlítið úr Duftinu, hlýðið á!

 

10. desember

Nú fer að styttast í jólasveinana, aðeins tvær vikur til jóla - og annað kvöld leggur Stekkjastaur af stað. Vonandi fær enginn eitur í skóinn, eða tösku eða flösku... en hér er kominn Jón Atli Jónasson með Eitur í skáldsögu.

 

9. desember

Fimmtán dagar til jóla. Á þessum fagra laugardegi gægist kynlífsráðgjafinn Áslaug Kristjánsdóttir út um glugga jóladagatalsins og hefur með sér bókina Lífið er kynlíf. Við gefum Áslaugu orðið.

 

8. desember

Vitið þið hvernig jólin eru haldin í Armeló? Sextán dagar til jóla og við fáum okkar daglegu stikkprufu úr jólabókaflóðinu. Í dag er það Þórdís Helgadóttir sem les upp úr bók sinni - Armeló!

 

7. desember

Í dag eru sautján dagar til jóla - en bara sextán dagar þar til Ketkrókur kemur til byggða. Það er því vel við hæfi að fá Braga Pál Sigurðarson til að lesa upp úr skáldsögu sinni Kjöt í dag. Atburðarásin sem hann lýsir gæti allt eins gerst við kjötborðið í jólaösinni... Reynum að muna: Ekki færa fólk til í verslunum eins og innkaupakerrur.

 

6. desember

Enn dimmir, í rúmar tvær vikur í viðbót. Væri ekki upplagt að nýta þann tíma til að lesa eins og eina spennubók? Sólveig Pálsdóttir lítur út um glugga dagatalsins í dag og kynnir fyrir okkur bók sína Miðilinn.

 

5. desember

Fimmti desember var samferða tunglinu í morgun. Í glugga dagsing gægist Friðgeir Einarsson út með skáldsögu sína Serótónínendurupptökuhemlar. Bókin opnar glugga inn í hjarta. Leyfum Friðgeiri að kynna söguna fyrir okkur. Nítján dagar til jóla. (Sigrún, kona Friðgeirs, prjónaði peysuna sem hann klæðist í myndbandinu og gaf Friðgeiri í afmælisgjöf fyrir um það bil fjórtán árum síðan.)

 

4. desember

Vissuð þið hvers vegna jólasveinarnir og -sveinkurnar eru alltaf í rauðum sokkum? Það er augljóst, ef þið pælið í því. Í glugga dagsins gægist Linda Ólafsdóttir, mynd- og rithöfundur, út; með bók sína Ég þori, ég get, ég vil!

 

3. desember

Fyrsti í aðventu! Tuttugu og einn dagur til jóla - það er þriðji desember, daginn styttir enn og stjörnur lýsa upp næturhúmið. Í dag fáum við að heyra af ljóðabókinni Stjörnufallseyjur eftir Jakub Stachowiak.

 

2. desember

Áfram höldum við og nú er það Sigurjón Magnússon sem segir okkur frá skáldsögu sinni sem ber titilinn Biluð ást. Hvað er nú eiginlega það? Hlýðið á!

 

1. desember

Þá er hann runninn upp, dimmur og fagur - desember. Jólatónlist er farin að óma víðast hvar og plötusnúðarnir farnir að blása rykið af jólaplötunum. Og þá er tímabært að taka stikkprufur úr jólabókaflóðinu. Daglega fram að jólum fáum við prufu af einni nýútkominni bók. Og það er engin önnur en Auður Ava Ólafsdóttir og með henni DJ Bambi. Hér segir hún okkur aðeins frá verkinu og les upp úr bókinni:

 

Stikkprufur úr fyrri flóðum: