Gleðin í því smáa | Bara eitt skref

Ég anda að mér svölu loftinu. Það er kalt í kvöld og ennþá svalara hérna uppi.

- Ég get þetta. Þetta er ekki flókið, bara stíga eitt skref og síðan fer allt sjálfkrafa af stað eftir það.

Af hverju hika ég þá? Er ég kannski bara hugleysingi eftir allt saman? Ég sem hef reynt að sannfæra alla um að ég standi engum að sporði. Segir maður það? Að sporði. Ferlega undarlegt orðatiltæki ef rétt reynist. Fókus! Ég get varla hætt við núna, hef aldrei vandað mig eins mikið við förðunina og sérstaklega fatavalið þó að það verði kannski ekki til neins, en það skiptir mig máli að líta eins vel út og ég get. Ég fór meira að segja í háa hæla fyrir tilefnið. Það er óþarfi að hafa áhyggjur af sárum fótum í kvöld.

- Jæja, á ekki að fara að drífa sig?

Ég hafði ekki tekið eftir neinum hérna þegar ég kom og hafði ekki heyrt neinn koma, en ég var jú í þungum þönkum. Svo áttaði ég mig á að ég vissi hver þetta var.

- Þú?!

- Já, ég er tilbúinn. Hvað með þig?

- Ja, ég átti nú ekki von á félagsskap og mér finnst óþægilegt að gera þetta svona fyrir

framan aðra.

- Ég er nú ekki hver sem er.

- Ég veit það alveg. Ég átti samt ekki von á þér strax eða ekki fyrr en eftir á, skilurðu. Þegar ég væri búin að taka skrefið.

- Nei, ég vil alls ekki missa af því.

- Þetta á nú ekki að vera neitt skemmtiatriði.

- Jú, fyrir mér er þetta toppurinn.

- Ertu ekki að grínast?

- Nei.

- Þú ert ógeð!

- Hey, engin ástæða til að vera með dónaskap. Ég þarf að reyna að njóta einhvers í vinnunni. Eru ekki allir að tala um að það eigi að vera gaman í vinnunni? Ég fór að reyna að horfa á ljósu punktana í minni og voila, í þessu er mesta spennan.

- Ég ...

- Svona drífðu þig nú, ég þarf að sinna fleirum í kvöld en þér.

- Mig langar ekkert til að vera eitthvert skemmtiatriði fyrir þig.

- Þú ætlar að taka skrefið, er það ekki?

- Ja, jú eða kannski, eða nei kannski ekki. Já, nei!

- Heyrðu, þú getur ekki farið að hætta við núna, kona góð. Hér er ég kominn ...

- Já aumingja þú, veistu mér er bara alveg sama. Ég er hætt við og þú getur bara farið

í ... farið í ... frí.

- Þetta virkar ekki svona. Hér er ég kominn og þú hættir ekkert bara si svona við allt saman.

- Þú segir mér ekkert fyrir verkum!

- Taktu skrefið og hættu þessu tuði kona. Svona, drífa sig!

- Nei! Ég ætla að fara heim og takast á við þetta Covid-ástand. Ég ætla að þrauka, þrauka í gegnum einmanaleikann og atvinnuleysið, eymdina og volæðið. Ég ætla að þrauka. Þrauka! Heyrir þú það?

- Heyrn mín er með eindæmum góð þrátt fyrir augljósar ástæður. Þú ætlar bara að hætta við allt saman?

- Já og ég ætla ekki að sjá þig aftur fyrr en eftir svona 50 ár eða svo. Þá máttu koma og horfa á mig.

- Það er ekki eins.

- Nei, en þá verður minn tími kominn.

- Er ég þá virkilega kominn hingað í algerri erindisleysu?

- Já, ég tek ekki þetta skref í kvöld. Vertu sæll.

Konan rigsar í átt að stiganum, lítur á skóna sína og dæsir.

- Getur þú kannski skutlað mér niður?

- Skutlað?

- Já.

- Gleymdu því. Farðu bara úr skónum kona.

- Djöfull ertu leiðinlegur. Hún fikrar sig niður brattann stigann í fínu skónum sínum. Eftir stendur skuggalegi maðurinn og brosir glaðhlakkalega.

- Ætli ég fái jólabónus frá Guði fyrir að nota öfuga sálfræði á konugarminn og bjarga henni frá dauða sínum? Hvers gæti ég óskað mér? Nýrrar skikkju eða ljás, já nýjan ljá, rafdrifinn!


Oddfreyja H. Oddfreysdóttir

Næst: Sóttkvíarnar