Anna Lyck Filbert

Viðtal | „Þú veist ekki hvað bókin geymir, þetta er eins og konfektmoli“

„Bókasöfn eru ein af grunnstoðum samfélagsins eins og sundlaugar, þetta tvennt fer ofar í forgangsröðina hjá mér en verslun, yfir það sem ég verð helst að hafa í nágrenni við heimili mitt. Þetta er mjög sterk þörf sem ég hef, að geta valið mér bækur með einföldum hætti.“

Segir Anna Lyck Filbert, íbúi á Kjalarnesi og fastagestur á Borgarbókasafninu Klébergi. Anna, sem les jöfnum höndum á íslensku og dönsku, segist alæta á bækur, að ljóðum og ævisögum undanskyldum. Mest les hún þó glæpasögur og eru norrænir höfundar í uppáhaldi en einnig nefnir hún kanadíska höfundinn Louise Penny og Sue Grafton frá Bandaríkjunum.

„Sue skrifar mjög ítarlegar lýsingar á umhverfinu og persónum, t.d. nákvæmlega hverju aðalpersónan klæðist og hvað hún borðar, mér finnst það gefa sögunum mikið, finnst persónusköpunin og umgjörðin skipta miklu máli. Ég hef líka gaman að því að skoða nýjar barnabækur og tek stundum bækur fyrir barnabörnin en einnig glugga ég í þær gömlu, sérstaklega Tinnabækurnar.“  

Þá nýtir Anna sér líka bókasafnið til að fletta blöðum eins og Hús og hýbýli og glugga í hannyrða- og matreiðslubækur.

„Sumar eru líka um mat og ferðalög sem er mjög skemmtilegt.“  
 

Covid opnaði dyr inn í hljóðbókaheiminn

Anna segist hafa uppgvötað hljóðbækur í heimsfaraldrinum. „Lengi vel þrjóskaðist ég við en finnst núna frábært að geta hlustað á bækur á Rafbókasafninu á meðan ég stunda hannyrðir, prikla illgresi eða flysja kartöflur. Kosturinn við það er líka sá að ég alltaf örugg með að hafa bækur til taks, áður var það svolítið stressandi að eiga það á hættu að verða „bókarlaus“  ef bókasafnið væri t.d. lokað.“   

Hún les þó ekki bækur í síma eða á bretti heldur kýs að halda á prentuðu eintaki og fletta blaðsíðum, „og svo skiptir kápan líka máli, finnst alltaf gaman þegar koma dómar um bókakápur í jólabókaflóðinu. Bakhliðin þarf líka að höfða til mín, ég les ekki hvað sem er.“  
 

Vikulegar bókasendingar

Þótt bókasafnið í Klébergi sé ekki ýkja stórt finnur Anna yfirleitt nokkrar bækur sem hana langar að lesa í hvert sinn sem hún fer á safnið, sem er mjög reglulega. Hún hefur því enn sem komið er ekki þurft að nýta sér þá þjónustu safnsins að fá sendar í Kléberg bækur frá öðrum söfnum Borgarbókasafnsins en segir manninn sinn gera það stundum. Það geri hann ýmist hjá starfsmanni safnsins í Klébergi eða inni á „mínar síður,“ á heimasíðu bókasafnsins, sem hann segir lítið mál. Einu sinni í viku kemur svo sending í Kléberg af bókum sem hafa verið pantaðar af Kjalnesingum og nærsveitungum. 

Anna segist hafa notað bókabílinn mikið þegar hann var enn á ferðinni og eins fari þau hjónin stundum á bókasafnið í Mosfellsbæ en hún segir það mikil lífsgæði að hafa bókasafn með fastan opnunartíma í hverfinu.

Anna Lyck Filbert les bók

Auka bónus að vera innan um fólk

„Bókasöfn eru svo frábær staður, þú getur droppað inn án þess að eiga endilega sérstakt erindi, tyllt þér niður og gluggað í bækur og blöð. Svo er auka bónus að vera innan um fólk þótt þú sért ekkert endilega að tala við það. Áður var það kannski aðeins einsleitari hópur sem nýtti sér bókasöfnin en nú er þar allskonar fólk. Bókasöfnin eru líka fullkomin ef maður þarf að bíða eftir t.d. börnum á íþróttaæfingu. Og það er ókeypis að heimsækja þau! Heimurinn er alltaf að breytast og nú ennþá meiri þörf fyrir bókasöfnin en áður.“ 
 

Bækur eins og konfektmolar

Anna hefur alla tíð verið mikill lestrarhestur. Þegar henni áskotnaðist aur sem barn fór hún gjarnan í bæinn og keypti notaðar bækur, bækur eins og Fimmbækurnar eða ævintýrabækurnar. Þegar hún flutti til Danmerkur sem unglingur hafi hinsvegar opnast fyrir henni nýr heimur með stórum og alvöru bókasöfnum sem hún hafði ekki kynnst áður hér á landi. Gleðin með hinn nýuppgvötaða ævintýraheim var afar mikil, svo mikil að hún minnist þess að hafa orðið ansi svekkt þegar móðir hennar setti hámark á þann fjölda bóka sem hún mátti fá lánaðar á bókasafninu, 30 bækur. Alla tíð síðan hafi heimsókn á bókasöfn verið stór þáttur í lífi fjölskyldunnar og lögðu þau hjónin mikið upp úr því að börn þeirra ælust við heimsóknir á bókasöfn, bæði heima í hversdeginum en einnig á ferðalögum, það væri gott að stinga sér þangað inn í friðsæld og rólegheit.  

„Þetta er algjör fjársjóður yfirleitt þessi bókasöfn. Það er eitthvað að vera innan um bækur. Þú veist ekki hvað bókin geymir, þetta er eins og konfektmoli, getur verið mjög góður en stundum ekkert of góður og þá er gott að geta gefið einhverjum öðrum hann, það er misjafn smekkur. En það er alls ekki oft sem ég hætti við bækur.“ 

Segir Anna að lokum og hvetur nágranna sína á Kjalarnesinu til að nýta sér þau lífsgæði að hafa bókasafn í hverfinu. Á bókasafninu Klébergi má finna bækur á íslensku, ensku og pólsku en lítið mál er að fá þangað sendar bækur fyrir börn, ungmenni og fullorðna, á ýmsum öðrum tungumálum. Einnig er hægt að fá send þangað borðspil til að spila á safninu og korthafar geta fengið þau lánuð heim sem og fjölbreytt mynd-og tónlistarefni, dvd diska og vínplötur.
Börn undir 18 ára fá ókeypis bókasafnskort en fullorðnir greiða lágt árgjald.

Category
Tags
UpdatedWednesday November 6th 2024, 15:28