Opið samtal um upplýsingalæsi

Upplýsingalæsi á hagsæld

Arndís Vilhjálmsdóttir stýrði Opnu samtali um hlutverk Hagstofun Íslands og hvernig gögnin sem stofnunin safnar gætu nýst almenningi í að greina og túlka hag og velsæld í samfélaginu betur.  

Gagna- og upplýsingalæsi almennings er sífellt að verða mikilvægari færni samfara aukinni upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum almennt. Hagstofan er í þeirri einstöku stöðu hafa það hlutverk að miðla áreiðanlegum upplýsingum um hagfélagsleg málefni. Var það umræðuefni samtalsins að leita leiða til að efla skilning á hagsæld og stöðu samfélagsins í nútíð og fortíð meðal almennings.  Nú er Hagstofan með nýtt verkefni sem ber heitið „Greindu betur”. Markmiði er að efla læsi almennings á líf þeirra í tölum og hvað þær segja okkur um samfélagið sem við búum í. Myndi verkefnið einnig styðja þannig við upplýsta lýðræðisumræðu.  

Opið samtal um upplýsingalæsi

Við borðið sat fjölbreyttur hópur fólks með ólíkan bakgrunn og ræddu leiðir til að ná til bæði nemenda í skólum og almennings. Væru það leikir, viðburðir eða útstillingar á bókasöfnunum sem myndu vekja áhuga fólks? Í Kópavogsbæ hafa skólar verið að prófa sig áfram með stafræna borgaravitund og læsi nemenda á gögnum sem þau sækja á hinum ýmsu stafrænu miðlum. Rætt var hvernig samstarf Hagstofunnar við skólayfirvöld gæti stutt nemendur í að greina upplýsingar og gögn. Fyrirmyndir er að slíku samstarfi t.d. í samkeppnum þvert á Evrópuríki þar sem nemendur spreyta sig á að greina hagtölur.  

Hagstofan safnar reglulega gögnum í samræmi við evrópska staðla og er óháð í sinni gagnaöflun gagnvart stjórnvöldum eða valdhöfum. Túlkun gagnanna er þó annað mál og er það ekki hlutverk Hagstofunnar að taka afstöðu til þess hvort að þróun sé góð eða slæm. Sérstaklega var rætt hvaða sýn innflytjendur hefðu á stofnunina, hvort þau bæru traust til Hagstofunnar og hver skilningur þeirra væri á hlutverkinu. Erfiðlega hefur reynst að afla gagna hjá þessum samfélagshópi og hugsanlega væri ný miðlunarleið og samtal í hlutlausu umhverfi, eins og á bókasafninu kjörið til að efla traust.  

Við þökkum kærlega fyrir samtalið og vonum að vettvangur bókasafnsins geti stutt við læsi á hagsæld og stöðu samfélagsins í nútíð og fortíð - einum af hornsteinum borgaralegs samfélags, þátttöku og heilbrigðs lýðræðis. 

Opið samtal um upplýsingalæsi

Frekari upplýsingar um Opið samtal veitir: 
Dögg Sigmarsdóttir 
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka 
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is 

Category
UpdatedWednesday May 22nd 2024, 13:42