Já, nú er það grænt!

Við á Borgarbókasafninu erum sífellt að leita leiða til að vera sjálfbærari og umhverfisvænni. Á undanförnum árum hefur grænum verkefnum okkar fjölgað og þau stækkað samhliða aukinni áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í samfélaginu.

Bókabíllinn kolefnisjafnaður

Í tilefni 50 ára afmælis Bókabílsins árið 2019 var ákveðið að kolefnisjafna akstur Bókabílsins frá upphafi og gróðursetja tré í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur í Heiðmörk. Starfsfólk Borgarbókasafnsins hefur nú gróðursett  6000 tré og við erum hvergi nærri hætt! Starfsfólk safnsins gerði sér ferð nýlega og skemmti sér konunlega við gróðursetninguna. 

Plastplan

Nú á vormánuðum hófum við samstarf við íslenska fyrirtækið Plastplan um endurvinnslu á því plasti sem til fellur við rekstur safnanna. Plastið er sótt vikulega til okkar og skilað til baka skömmu síðar í formi nytjahluta sem við hönnum í samstarfi við Plastplan. Borgarbókasafnið er fyrsta stofnunin til að ganga til samstarfs við fyrirtækið.

 

 

Grænu skrefin

Borgarbókasafnið er þátttakandi í Grænum skrefum og í vetur kláraði bókasafnið í Gerðubergi fjórða skrefið, og fylgir Grófin fast á eftir. Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar snýst um að efla vistvænan rekstur í starfsemi borgarinnar og minnka umhverfisáhrif sveitarfélagsins í fjórum skrefum. Hér má sjá myndband sem gert var af Grænum skrefum um umhverfisverkefni á Borgarbókasafninu. 

Bókasafnið: grænt og vænt fyrir okkur öll!

Starfsemi bókasafna er í eðli sínu umhverfisvæn, þar sem bækur, tónlist, myndir, saumavélar, upptökugræjur, borðspil og margt margt fleira er notað af samfélaginu í heild, í stað þess að hvert og eitt okkar kaupi sitt eigið. Við erum alltaf að leita leiða til að vera enn umhverfisvænni og tökum glöð við ábendingum um hvað megi betur fara í umhverfismálum.

Category
UpdatedTuesday July 9th 2024, 10:43