Sjón, rithöfundur

Bókmenntavefurinn | Sjón

Nú í ár 2023 hlaut rithöfundurinn og skáldið Sjón hin virtu norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar. Á Bókmenntavefnum má fræðast um höfundinn og verk hans, lesa æviágrip og rýni í skáldskapinn. Sjón er fæddur í Reykjavík 27. ágúst árið 1962 og hefur frá unglingsaldri verið mikilvirkur í skáldskaparskrifum og unnið þverfaglega í listheiminum. Hann skrifar innan ólíkra bókmenntaforma og hefur sent frá sér fjölda bóka, fjölbreyttan skáldskap; ljóð, skáldsögur, skrifað kvikmyndahandrit og söngtexta og óperu. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir skrif sín;  Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Íslensku bókmenntaverðlaunin, sæmdur franskri heiðursorðu lista og bókmennta, L'Ordre des Arts et des Lettres, evrópsku Fedora-Generali verðlaunin og nú í ár bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar, sem gjarnan hafa verið nefnd Norrænu Nóbelsverðlaunin eða litli nóbelinn.

Reykjavík 11.03.’80

Kæra F-

Í nótt dreymdi mig að þú klipptir af þér
allt hárið og gerðir úr því rúm sem við
elskuðumst í. Á veggnum á móti var spegill
og þegar ég fékk fullnægingu þá sá ég í
honum að þú varst ekki lengur hjá mér. Þú
sast í stól og lakkaðir á þér neglurnar
með grænu naglalakki unnu úr engisprettum.
Þú sagðir: Rauð hús eru þínar konur.
Þá vaknaði ég við það að ég beit mig í
öxlina. Klukkan var hálf sjö.
Annars er allt gott að frétta, hér er
kalt en samt nógu heitt fyrir gömul
tígrisdýr.

Bless, þinn vinur
Sigurjón

Sjón, Sjónhverfingabókin, 1983

Ljóðið birtist í Sjónhverfingabókinni og er gott dæmi um tök Sjóns á tungutaki hins súrrealíska ljóðs. Myndmálið er tilgerðarlaust og húmorinn lýsir í gegn, en jafnframt skapast í þessum stutta texta einhver undarleg stemning; draumaminnið er agað og áhrifamikið og undirstrikað með notkun spegilsins, sem er einnig tákn óveruleika eða annarlegs rýmis. Og svo er það upplausnin á mörkum draums og veruleika sem er einkennismerki skáldsins, þegar ljóðmælandi vaknar er hann enn í landi annarleikans og draumnum er ljóslega ekki lokið eða hvað?

Erótíkin tengist líka dulvitund og draumum, en draumurinn opnar leið inn í dulvitundina. Hafið hefur lengi verið ein af helstu táknmyndum hennar; hafið, djúpin eða „mother oceania“ eins og segir í sönglagatexta sem Sjón samdi fyrir Björk í tilefni af opnun Ólympíuleikanna í Aþenu árið 2004. Erótíkin getur líka tengst tilfinningu óhugnaðar sem ber einnig við í ljóðum Sjóns, stundum í líki hryllings.  

Úlfhildur Dagsdóttir, Bókmenntavefurinn

Viðtal við Sjón á Louisiana Channel: Let the reader do the work

Hér að neðan gefur að líta bókalista með broti úr stóru höfundarverki skáldsins. Við mælum með lestri og bendum einnig á fróðlega grein um skáldverk Sjóns á Bókmenntavefnum: Leikfangakastalar höfundarins: Sjóns.

Category
UpdatedThursday February 15th 2024, 11:30
Materials