100 ára afmæli Borgarbókasafnsins
Þann 19. apríl 2023 verða 100 ár liðin frá því að Reykvíkingar eignuðust sitt eigið bókasafn. Var það nefnt Alþýðubókasafn upphaflega, síðar Bæjarbókasafn Reykjavíkur og heitir í dag Borgarbókasafn Reykjavíkur.
Safnið er ein elsta menningarstofnun höfuðborgarinnar og því tilefni til að rifja upp góðar minningar en um leið að horfa fram á veginn, því bókasöfn eru ein af mikilvægustu grunnstoðum í lýðræðissamfélagi nútímans.
Tímamótunum verður fagnað með ýmsu móti; með huggulegri afmælishelgi og áhugaverðri dagskrá og menningarmiðlun í ýmsu formi út árið.
Afmælishelgin verður stútfull af skemmtilegum uppákomum, söfnin í sannkölluðum hátíðarbúning og kaffi og afmæliskaka fyrir öll sem vilja koma og njóta daganna með okkur.
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, starfsfólk Borgarbókasafnsins og íbúar hverfisins taka á móti forseta Íslands, herra Guðna Th. Jóhannessyni í nýjasta safninu í Úlfarsárdal og taka þeir virkan þátt í afmælisdagskránni.
Boðið verður upp fjölbreytta dagskrá þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi; tónleikar, bókmenntaviðburðir, föndursmiðjur, ratleikir, getraunir, leiðsagnir um króka og kima safnanna og margt fleira.
Í valmyndinni til hliðar eru hlekkir á heildardagskrá allra safna og stærri viðburði afmælishelgina 15. og 16. apríl 2023.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Dís Jónatansdóttir, deildarstjóri miðlunar
gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is