Góður andi ríkti í Ráþhúsinu þegar ráðstefnan Nordic Libraries Together var sett við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu.

Ráðstefnan Nordic Libraries Together | Móttaka fyrir ráðstefnugesti í boði Borgarstjóra Reykjavíkur

Um 150 manns munu sækja alþjóðlegu ráðstefnuna Nordic Libraries Together sem Borgarbókasafnið heldur dagana 18. – 20. október í tilefni af 100 ára afmælinu í ár.

Fjöldi gesta frá bókasöfnum erlendis sækja ráðstefnuna ásamt starfsfólki almenningsbókasafna hér á landi. Yfirskrift ráðstefnunnar er Almenningsbókasafnið sem samfélagsvettvangur og lykilfyrirlesari er hinn þekkti félagsfræðingur Eric Klinenberg sem hefur stundað rannsóknir og skrifað bækur um einmanaleika í nútímasamfélögum og nauðsyn þess að hlúa að félagslegum innviðum samfélagsins. Að tryggja fólki aðgengi að opnum samfélagsrýmum í nærumhverfi sínu, en þar leika bókasöfnin stórt hlutverk.

Skúli Helgason ávarpaði ráðstefnugesti og Kristine Boelt frá Nordic IFLA Network hélt tölu. Vigdís Hafliðadóttir úr hljómsveitinni Flott kom einnig fram og gladdi viðstadda.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi, tók á móti ráðstefnugestum í ráðhúsinu í boði Borgarstjóra Reykjavíkur miðvikudaginn 18. október. Í ræðu sinni nefndi hann dæmi um þau fjölmörgu, nýstárlegu verkefni sem Borgarbókasafnið hefur sett á laggirnar á síðustu árum og sagði m.a. frá nýjustu söfnunum í Úlfarsárdal og Klébergi. Hann endaði ræðu sína á tilvitnun í stefnu Borgarbókasafnsins sem var vel við hæfi enda rímar hún vel við þema ráðstefnunnar.

Hugsaðu þér stað...

Þar sem öll eru velkomin og það kostar ekkert inn. Stað þar sem þú getur verið eins og þú ert og leitað athvarfs frá amstri dagsins.

Í samtali við aðra, sem þú hefðir annars ekki hitt, fæðast hugmyndir og þú uppgötvar eitthvað nýtt.

Á þessum stað er þér meira en velkomið að deila því sem þú hefur – hugmyndum, reynslu og hæfni. Þegar þú gengur út, finnst þér þú tilheyra einhverju stærra, vita og skilja aðeins meira. Þú býrð að upplifun á rými sem endurspeglar samfélagið okkar.

Bókasafnið getur verið þessi staður; samfélagsrými og þátttökugátt þar sem við deilum sögum, menningu og upplifun.

Borgarbókasafnið þakkar fyrir góðar móttökur í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem gestir náðu góðu spjalli og fengu að kynnast íslenskum húmor og söng þegar hin eina sanna Vigdís Hafliðadóttir, í hljómsveitinni Flott, steig á svið. Að móttöku lokinni var gestum boðið í draugagöngu um miðborgina.

Ráðstefnan fer fram í Borgarbókasafninu Úlfarsárdal og þar gefst þátttakendum kostur á að heyra um fjölbreytt þróunarverkefni sem sett hafa verið á laggirnar á bókasöfnum, jafnt erlendis sem hér á landi, og fela í sér samfélagslega nýsköpun. Boðið verður upp á spennandi fyrirlestra og jafnframt verður þátttakendum boðið að taka þátt virkan þátt í vinnusmiðjum og umræðum.

Hér má finna allar upplýsingar um ráðstefnuna.