
Um þennan viðburð
Barnamenningarhátíð | Heilbrigð náttúra
Staðsetning: Torgið á 1. hæð
Verkin á sýningunni eru afrakstur vinnu nemenda í skólum sem taka þátt í LÁN (listrænt ákall til náttúrunnar).
Nemendur Landakotsskóla á aldrinum 5 -15 ára sýna niðurstöður rannsókna sinna á líffræðilegum fjölbreytileika og sérkennum íslenskra dýra. Fjölbreytni lífríkisins er forsenda þess að vistkerfi geti starfað. Heimsbyggðin stendur frammi fyrir mikilli umhverfisvá af mannavöldum. Vandinn lýsir sér hvað helst í hnignun og jafnvel hruni líffræðilegrar fjölbreytni, sem stafar af loftslagsbreytingum og víðtækri röskun búsvæða, vistkerfa og samfélaga lífvera sem þar lifa. Ein ástæðan er að of margir líta á sig sem drottnara náttúrunnar í stað þess að líta á sig sem hluta hennar.
Sjá alla dagskrá Barnamenningarhátíðar hér.
LÁN er þverfaglegt þróunarverkefni úr smiðju Ásthildar Jónsdóttur og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Verkefnið tengir saman náttúrufræði og listgreinar, með sjálfbærni og umhverfisvitund í brennidepli. Lögð er áhersla á að kynnast málefnum náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt, með aðferðum list- og verkgreina í samvinnu við listafólk, hönnuði og vísindamenn. Markmið verkefnisins er að styrkja sjálfsmynd og gagnrýna hugsun nemenda og trú þeirra á eigin getu. Verkefnið ýtir undir nýsköpun og stuðlar að starfsþróun kennara með áherslu á skapandi kennsluhætti. Verkefnið styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og eykur áhuga og meðvitund ungs fólks á náttúrufræði og sjálfbærni.
Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, sérfræðingur
gudrun.elisa.ragnarsdottir@reykjavik.is | 411 6145