
Um þennan viðburð
Tilbúningur | Bókamerkjasmiðja
Langar þig að eiga notalega stund þar sem sköpunarkrafturinn fær að njóta sín í góðum félagsskap?
Þennan fyrsta fimmtudag haustsins ætlum við að búa til okkar eigin bókamerki en þau eru algjört þarfaþing í öllum lestrinum sem er framundan í vetur.
Starfsfólk bókasafna sér ýmsar skrautlegar aðferðir fólks til þess að merkja við hvar síðast var numið staðar við lesturinn, til að mynda með kvittunum, gömlum ljósmyndum, þurrkuðum laufblöðum, afmæliskortum, miðum með innkaupalistum eða áminningum um hvenær þarf að mæta til læknis. Allt er þetta auðvitað lausnamiðað og handhægt en það er eitthvað notalegt við að eiga gæðalegt og fallegt bókamerki - enn betra ef það er heimatilbúið!
Það er um að gera að leyfa ímyndunaraflinu og sköpunarkraftinum að ráða för. Hægt verður að skreyta karton í góðri bókamerkjastærð en við eigum ýmsar gerðir lita, penna, skrautgatara, límmiða, garn og nálar, skæri, límstifti, gamlar bækur og fleira nytsamlegt. Fyrir þau sem vilja meiri áskorun verður einnig hægt að spreyta sig í pappírsbroti (origami).
Tilbúningur er viðburðaröð sem fer fram fyrsta fimmtudag hvers mánaðar í Borgarbókasafninu Úlfarsárdal frá kl. 15:30-17:30.
Eigum saman notalega stund, búum eitthvað til úr einhverju og endurnýtum alls konar. Leiðbeinendur koma með hugmyndir, efni og áhöld og aðstoða við tilbúninginn.
Viðburðirnir henta skapandi fólk á öllum aldri. Börn yngri en 8 ára komi í fylgd með forráðamanni.
Kostar ekkert og engin skráning.
Nánari upplýsingar veitir:
Stella Sif Jónsdóttir | Viðburðir
stella.sif.jonsdottir@reykjavik.is