Viðtal | „Langar mest að eiga bókasafnið“

„Ég er mjög mikill bókaormur“ segir Katla, nemandi í fjórða bekk í Klébergsskóla. Aðspurð hvernig bækur henni finnst skemmtilegast að lesa og hvort hún eigi sér uppáhalds bók segir hún það fari mikið eftir því í hvernig skapi hún sé í þá stundina, suma daga finnist henni ævintýrabækur skemmtilegastar, aðra daga ofurhetjubækur og enn aðra daga eru grínbækur efst á listanum.

„Ég hef lesið mikið eftir Ævar Þór og allan bókaflokkinn Handbók fyrir ofurhetjur en mér fannst nýjasta bókin, sem er númer 9, ekki mjög skemmtileg. Ég er líka búin að lesa nokkrar Óvættaför bækur og nú var ég að klára að lesa Ég og Milla, allt í köku.“ 

„Það liggur við að hún sé búin að lesa hálft bókasafnið“ 

segir Sandra Þórisdóttir, móðir Kötlu og kennari við Klébergsskóla. 

Katla les að eigin sögn frekar hratt og finnst frábært að geta skotist á bókasafnið, annað hvort með vinum á skólatíma eða með mömmu sinni og systkinum eftir skóla.

„Stundum er ég með með svolítið þykkar bækur og er þá aðeins lengur að lesa, kannski 2-3 vikur.“ 
 

Auðvelt að nota sjálfsafgreiðsluvélarnar

Katla kann að nota sjálfsafgreiðsluvélina á bókasafninu og getur því vel bjargað sér sjálf þegar kemur að því að fá lánaðar bækur og skila bókum.

„Það er sko mjög auðvelt og ég er eldsnögg, skýst bara inn, gríp nokkrar bækur sem mér líst vel á og skrái þær út. Mamma er oft svo lengi að velja sér bók að ég nenni ekki að bíða eftir henni heldur hleyp heim á undan og byrja að lesa.“

Fyrir nýja notendur safnsins þá er ávallt starfsmaður á staðnum til að skrá út safnkost sem fólk vill fá að láni en er líka boðinn og búinn til að kenna á sjálfsafgreiðsluvélarnar. 

Líkt og dóttirin vill Sandra helst alltaf vera með bók á náttborðinu.

„Í fyrrasumar datt ég inn í Jenny Colgan bækurnar, féll alveg fyrir þeim, léttmeti sem hægt er að hlægja að, pínu ástardrama. Ég les samt mest spennisögur t.d. eftir sænsku höfundana Mons Kallentoft og Vivecu Sten. Hef líka aðeins nýtt mér að fá sendar bækur hingað í Kléberg en hér er þó oftast það sem maður þarf.“
 

Gott aðgengi eykur áhugann

Sandra segir að í sínum huga sé afar mikilvægt fyrir Kjalnesinga að hafa sitt eigið bókasafn innan hverfisins.

„Það skiptir öllu máli að hafa bækur aðgengilegar, ég tala ekki um nýju bækurnar fyrir jólin, það kveikir áhugann á lestri hjá börnunum. Það er líka miklu meira spennandi að fara á bókasafnið en að lesa alltaf sömu bækurnar heima aftur og aftur. Mér finnst, bæði sem foreldri og kennari, frábært að börnin geti komið hér inn, rölt um, skoðað bækurnar og valið sjálf.“

Aðspurð hvort hún vilji bæta einhverju við í lokinn stendur ekki á svari hjá Kötlu,

„Ég vildi óska að ég mætti eiga bókasafnið og gera það ennþá stærra!“
 

Á Borgarbókasafninu Klébergi má finna fjölda skáldsagna á íslensku, ensku og pólsku, matreiðslubækur, hannyrðabækur og fleira spennandi lesefni. Einnig er lítið mál að fá sent í Kléberg bækur á ýmsum öðrum tungumálum, fyrir börn, ungmenni og fullorðna, borðspil, tónlistar-og myndefni frá öðrum söfnum Borgabókasafnsins. Það er gert inn á „mínar síður“  á borgarbokasafn.is, með því að hringja á eitthvert átta bókasafnanna eða fá aðstoð hjá starfsmanni í afgreiðslu.

Bókasafnið Klébergi er opið á mánudögum og fimmtudögum kl.14 – 18. Gengið er inn bakatil, upp regnbogastíginn og til vinstri, inn sama inngang og frístundaheimilið Krílakot.

Börn undir 18 ára fá ókeypis bókasafnskort en fullorðnir greiða lágt árgjald.

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 6. febrúar, 2025 16:56