Kjarnasamfélag og híbýlaauður
Charles Durrett, arkitekt, rithöfundur og aktívisti kynnti í Opnu samtali á Borgarbókasafninu hvernig hægt er að stofna kjarnasamfélag sem búsetuform. Þar er samveran sett í fyrsta sæti og híbýli byggð sem efla samveru íbúa með nóg af plássi fyrir sameiginleg rými. Charles kynnti leiðarvísi fyrir fólk sem sækist eftir því að byggja heimili í samfélagi við aðra. Í byrjun er myndaður hópur fólks sem hefur áhuga á annarskonar búsetu. Þau koma sér saman um grunngildi og markmið áður en fjármagni er safnað til að byggja húsnæði. Ferlið tekur um tvö til þrjú ár, allt frá því að hópur er myndaður, fjármagn fundið og byggingin er tilbúin til búsetu. Úr verða heimili í samfélagi þar sem samvera og þarfir hvers hóps fyrir sig ráða því hvernig það er hannað og byggt.
Charles hefur skrifað bækur um kjarnasamfélög og einnig hannað og stofnað nokkur félög sem er ætlað að efla híbýlaauð og samveru fólks . Charles minntist á að eitt af lykilatriðum kjarnasamfélags er að það sé einn stígur sem liggur á milli bygginga þar sem fólk mætist á leið sinni til og frá heimili. Bílastæði eru fyrir utan búsetusvæðið og umhverfið gefur fólki færi á að gera hluti saman.
Opna samtalið var skipulagt í samvinnu við Kjarnasamfélag Reykjavíkur sem vinnur statt og stöðugt að því að efla híbýlaauð í Reykjavík. Þau eru nú á höttunum eftir landsvæði til að byggja híbýli sem stendur á grunni gilda kjarnasamfélagsins. Samtalið er upptaktur af ráðstefnunni “Living Closer - conference for collaborative housing” sem haldin verður í Reykjavík 10. - 11.október 2024.
Borgarbókasafnið býður upp á umræðuvettvanginn Opið samtal sem brúar bilið á milli einstaklinga, samtaka og stofnana. Í Opnu samtali er markmiðið að ræða saman brennandi málefni á jafningjagrundvelli, með það að markmiði að finna svörin saman, koma málum í farveg og að ólík sjónarmið fái að heyrast.
Öllum er frjálst að senda inn tillögu að umfjöllunarefni.
Nánari upplýsingar um Opið samtal veitir:
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dögg.sigmarsdottir@reykjavik.is