Kindur í þoku
Hólarnir renna saman í hvítt.
Menn eða stjörnur
horfa á mig dapurlega, ég veld þeim vonbrigðum.
Lestin skilur eftir sig blástursrák.
Ó hægt
hestur á litinn eins og ryð,
hófarnir, sorgar klukkur -
í allan morgun
hefur morgunninn verið að sortna,
blóm liggur eftir.
Kyrrðin í beinum mínum, fjarlægir
vellirnir bræða hjarta mitt.
Þeir hóta
að flytja mig inn í himininn,
stjarnlausan og föðurlausan, dimmt vatn.
SHEEP IN FOG / Kindur í þoku eftir skáldið Sylvia Plath, sem fæddist 27. október 1932 og lést þann 11. febrúar 1963. Ljóðið var fyrst útgefið í ljóðasafni Plath, Ariel.
Íslensk þýðing er eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur (1930-2021) og birtist í ljóðabók hennar Fiskar hafa enga rödd.
Þann 9. mars verður minning Vilborgar heiðruð með ljóðakaffi, Steinarnir brosa líka, á Borgarbókasafninu Gerðbergi. Gerður Kristný flytur erindi um skáldkonuna og lesin verða ljóð og ljóðaþýðingar Vilborgar.