Hringrásin á Borgarbókasafninu

Bókasöfn eru deilihagkerfi í eðli sínu og umhverfissjónarmið eru ríkjandi í stefnu Borgarbókasafnsins. Þess vegna fögnum við allri hringrás á bókasafninu, í hvaða formi sem hún birtist. Hér má sjá brot af starfsemi Borgarbókasafnsins sem fellur undir Hringrásarhagkerfið

Ef þú ert með góða hugmynd að verkefni skaltu hafa samband í gegnum formið sem þú finnur neðst á þessari síðu.

 

Hringrásarsafnið 

Hringrásarsafnið er verkefni sem unnið er í samstarfi við Munasafnið - Reykjavík Tool Library. Sjálfsafgreiðsluskápa má finna á nokkrum söfnum okkar, þar sem hægt er að fá ýmsa nytsamlega hluti og smærri verkefni að láni. Nánari upplýsingar hér

 

 

Skiptimarkaðir

Skiptimarkaðir okkar eru sívinsælir og gildir þá einu hvað er til skiptanna. Meðal þess sem sett hefur verið í pottinn hjá Borgarbókasafninu eru leikföng, plöntur, jólaskraut, listaverk og skrautmunirföt, borðspil og ýmislegt fleira.

 

 

Afskrifaðar bækur

Á söfnum okkar má oft finna afskrifaðar bækur gefins eða ódýrar, en við viljum gjarnan að þær verði lesnar áfram þótt þær séu teknar úr umferð á bókasafninu. (Stundum eru þær líka nýttar í ýmsar föndursmiðjur.)

Og svo má auðvitað nefna að það er umhverfisvænt að lesa bækur - sérstaklega bókasafnsbækur!


 

Fræsafn

Seed Library, eða Fræsafn, er verkefni sem verið er að koma á laggirnar á Borgarbókasafninu, en þar mun gestum gefast kostur á að sækja sér fræ til ræktunar og skila svo fræjum til baka, úr plöntunni sem upp sprettur. Þannig hjálpumst við að við að rækta harðgerar plöntur sem henta sérstaklega nærumhverfi safnsins og veðrabrigðum þess. Nánar um það síðar!

 

og margt fleira ...

Stefna Borgarbókasafnsins er að leita alltaf leiða til að verða grænni og umhverfisvænni og viljum við gjarnan að það endurspeglist í starfi okkar og viðburðahaldi. Meðal reglulegra viðburða á söfnunum okkar má nefna Tilbúning sem haldinn er í Spönginni og Árbæ. Þar eiga þátttakendur saman notalega stund og búa til eitthvað úr einhverju og endurnýta alls konar! 

Fyrir þau sem eru forvitin um gámagrams má benda á viðburð þess efnis í byrjun október. 

 

Langar þig að taka þátt í hringrásarhagkerfinu? 

Ef þú brennur fyrir umhverfisvernd og hringrásarhagkerfinu og ert með hugmynd að viðburði eða samstarfi skaltu ekki hika við að hafa samband og við skoðum málið!