Leshringir á Borgarbókasafninu

Borgarbókasafnið er staðsett um alla borg á alls 7 stöðum. Leshringir er eitt af því sem safnið býður upp á og nú eru 6 slíkir starfræktir á 5 söfnum.

Það er góð gjöf að gefa sér þann tíma aflögu að lesa bók og mæta á bókasafnið og spjalla um lestrarupplifun í góðum hóp. Ein upplifun kveikir aðra. Fyrirkomulagið í hverjum leshring er með ólíkum hætti en þeir eiga það sameiginlegt að fólk kemur saman í litlum hópum (um 5-15 manns), á huggulega stund yfir kaffibolla og talar saman um bókmenntir. Það uppgötvast oft nýjar hliðar á skáldskapnum, fólk er ýmist sammála eða ósammála og sér og upplifir texta með ólíkum hætti. Það skapast frjóar umræður um allt milli himins og jarðar sem viðkemur efni bókanna sem er til umræðu.

Hér má sjá yfirlit yfir alla leshringi Borgarbókasafnsins. 

 

Allskonar bækur - Árbæ

Leshringurinn Allskonar bækur hefur verið virkur í bráðum 12 góð ár. Þau byrja árið á að spjalla um lesefni yfir hátíðirnar þar sem hver og einn segir frá sínum jólabókum. Á árinu sem er að líða hefur leshringurinn m.a. lesið skáldsöguna Olíu eftir Svikaskáldin og Efndir eftir Þórhildi Ólafsdóttur, ljóðabækurnar Slitur úr orðabók fugla eftir Guðrúnu Hannesdóttur og Loddaralíðan eftir Berglindi Ósk Bergdóttur. Þá hélt hópurinn upp á 11 ára afmæli leshringsins, fór saman út að borða og á bókmenntakaffi um Erfð áföll í Gerðubergi þar sem Elíasbet Jökulsdóttir og Anna Hafþórsdóttir ræddu um tráma og bókmenntir. Einnig var t.d. lesin ný þýðing, Það sem hangir um hálsinn eftir Chimamanda Ngozi Adichie. Þau fengu fræðslu um innrím og að sögn eru skemmtilegustu tímarnir þegar fólk hefur mjög skiptar skoðanir á bókum og miklar umræður skapast í kjölfarið. Það er Jónína Óskarsdóttir sem hefur umsjón með leshringnum Allskonar bækur.

 

Sólkringlan - Kringlan

Leshringurinn Sólkringlan skiptir árinu upp í þemu. Fyrri hluta ársins voru það æviminningar kvenna sem tengja saman Ísland og útlönd. Þau lásu m.a. bækurnra Ólöf eskimói: Ævisaga íslensk dvergs í Vesturheimi og Sonja: líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorrilla. Bæði Sonja og Ólöf fluttust til Norður-Ameríku en Sonja var mikill bóhem og lifði alla tíð forréttindalífi og umgekkst fína og fræga fólkið en Ólöf þurfti að bjarga sér með því að ljúga til um uppruna sinn og þykjast vera frá Grænlandi. En allar ævisögurnar sem voru lesnar reyndust mjög áhugaverðar og ævintýralegar.

Á haustönn var þemað Austur- og Norðuaustur-Evrópskar bókmenntir og á leslistanum voru m.a Sumarbókin eftir Tove Jansson og Dauðinn og mörgæsin eftir Andrej Kúrkov, en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 2022. Guttormur Þorsteinsson hefur umsjón með leshringnum og segir að af skáldsögunum sem voru lesnar á árinu þá er það líklega sú sjálfsævisögulegasta sem hafði mest áhrif, Hvernig ég kynntist fiskunum eftir tékkneska gyðinginn Ota Pavel, hvernig hann lýsir bæði ljúfri barnæsku fyrir stríðið, hörmungum heimstyrjaldarinnar og melankólíunni eftir að henni lýkur og lífið verður aldrei samt þó að fjölskylda hans komist lífs af.

 

Sveigur - Spöngin

Í upphafi árs 2022 var þemað hjá leshringnum Sveigur, látnir og ný verðlaunaðir kvenkyns rithöfundar. Spjallað var um listamanninn, líf hans og svo verkið sem fyrir lá hverju sinni. Úr þagnarhyl: Ævisaga Vilborgar Dagbjartsdóttur var m.a. lesin sem og Fórnarleikar eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Á haustönn var markmiðið að fara út fyrir þægindarammann og lesa eldri metsölubækur frá öðru en enskumælandi löndum. Leshringurinn las m.a. Mæling heimsins eftir Daniel Kehlmann og þótti nokkuð erfið aflestrar. Hópurinn fór einnig saman út að borða og í leikhús og las bókina sem leikritið byggir á, Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur og var það sú bók sem hópurinn mærði mest. Umsjón með Sveig hefur Ásta H. Ólafsdóttir.

 

Hrútakofinn - Spöngin

Hrútakofinn er sjálfstæður leshringur sem er einungis skipaður karlmönnum. Fyrirkomulagið er að hver og einn les bók að eigin vali út frá fyrirfram gefnu þema og segir frá bókinni. Á árinu 2022 var því spjallað um margar bækur sem einhver úr hópnum er að lesa. Dæmi um þemu ársins voru: bók frá landi sem byrjar á B og var þá. t.d. lesin Alkemistinn eftir Paulo Coehlo, bók sem gefin var út fyrir árið 1922 og þar var m.a. lesin Heart of Darkness/Innstu myrkur eftir Joseph Conrad, bók sem telst vera klassík og þá var m.a. lesin Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera. Einnig voru lesnar hrollvekjur, bækur að eigin vali og ljóðabækur. Það er Gunnar Þór Pálsson sem hefur umsjón með Hrútakofanum.

 

Circulo de lectura - Gerðuberg

Leshringur á spænsku, Circulo de lectura er hópur sem hittist og spjallar um ákveðna höfunda eða bækur og velja þátttakendur sjálfir efnið. Í haust kom Hólmfríði Garðarsdóttur í  heimsókn að fjalla um skáldin Federico Garcia Lorca og Pablo Neruda og Kristinn R. Ólafsson heimsótti leshringinn og sagði frá nýrri bók eftir sig, Þær líta aldrei undan: smásögur / Nunca apartan la mirada . Umsjón með leshringnum er í höndum Vignis Árnasonar.

 

Leshringurinn 101 - Grófin

Í leshringnum 101 hafa verið lesnar bæði skáldsögur og ljóðabækur sem eru fyrirfram ákveðnar í upphafi hvers misseris. Í byrjun árs var það Merking eftir Fríðu Ísberg og Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur. Það skapaðist mikil og frjó umræða um efni þessara bóka, þær kveiktu í fólki á mjög ólíka vegu. Einnig voru lesnar þýðingarnar Kona á flótta eftir  Anais Barbeau-Lavalette og Verndargripur eftir Roberto Bolano. Haustönnin hófst á skáldsögu eftir Eirík Guðmundsson, Ritgerð mín um sársaukann, en hann lést á árinu sem er að líða. Nýlegar íslenskar ljóðabækur voru teknar fyrir, Þykjustuleikarnir eftir Anton Helga Jónsson, Skepna í eigin skinni eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur og Við lútum höfði fyrir því sem fellur eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur. Þátttakendur í leshringnum völdu ljóð úr bókunum sem þóttu sérstaklega minnisstæð og lásu upp fyrir hópinn. Þessi þrjú skáld, Hrafnhildur, Alda og Anton mættu á Kveikju, bókmenntaviðburð á Borgarbókasafninu Gerðubergi og fluttu hugvekjur um eld og innblástur í tengslum við ljóð sín. Í lok árs voru tvær skáldsögur teknar fyrir í leshringnum, Sólrún – saga um ferðalag eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur og Beckomberga-geðsjúkrahúsið eftir Söru Stridsberg. Umsjón með 101 hefur Soffía Bjarnadóttir.

 

Vel af sér vikið að flögra um árið gegnum þéttan skóg af skáldskap. Það er dásamlegt að gleyma sér í skáldskaparheimi og uppgötva kannski eitt og annað um heiminn og sjálfan sig í leiðinni.
 

Það fyllist oft fljótt í leshringina því mikilvægt er að hafa hópinn ekki of stóran svo það myndist traust fyrir notalegt spjall. Þess má geta að ef þig langar að stofna þinn eigin leshring þá erum við á safninu alltaf opin fyrir nýjum leshringjum í öllum söfnum. Ef þú hefur áhuga hvetjum við þig til að hafa samband með því að senda okkur tölvupóst á það safn sem þig langar að hafa leshringinn og við aðstoðum þig að koma honum á laggirnar. 

Borgarbókasafnið á 7 stöðum í borginni:

Árbær : s. 411 6250
arbaer@borgarbokasafn.is

Spöngin: s. 411 6230
spongin@borgarbokasafn.is

Kringlan:  s. 411 6200
kringlan@borgarbokasafn.is

Úlfarsárdalur:  s. 411 6270
ulfarsa@borgarbokasafn.is

Grófin: s. 411 6100
grofin@borgarbokasafn.is

Sólheimar: s. 411 6160
solheimasafn@borgarbokasafn.is

Gerðuberg: s. 411 6170
gerduberg@borgarbokasafn.is


Hér að neðan gefur að líta fjölbreytt brot af þeim bókum sem voru lesnar í leshringjum Borgarbókasafnsins árið 2022!

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 15:02
Materials