Minningabankinn
Bókverkasafn þátttakenda í verkefninu Minningabankanum óx á bókasafninu. Þau mættu með minningar sínar og gerðu tilraunir með texta, myndir og einfalt bókband. Lóa Hjálmtýsdóttir miðlaði frásagnartækni sem brúar bil og sameinar eiginleika rit- og myndlistar og myndasöguformsins. Í upphafi verkefnisins kynnti Lóa Minningabankann með eftirfarandi hætti:
„Stundum er eins og höfuðið sé ferðataska full af minningum. Hvernig væri að viðra þessar uppsöfnuðu minningar og jafnvel sjá þær í nýju ljósi? Eitt augnablik gæti orðið að heilli sögu. Lyktin sem var alltaf heima hjá ömmu er kannski efniviður í gamansögu eða hversdagslegan hrylling.“ – Lóa Hjálmtýsdóttir
Rithöfundarnir Auður Jónsdóttir, Eva Rún Snorradóttir, Kamilla Einarsdóttir og Natasha S. miðluðu til þátttakenda hvernig hægt er að vinna með minningar og drauma í skrifum og sköpun. Komu þær til dæmis með eftirfarandi innlegg:
„Margt af því leiðinlegasta sem ég lendi í núorðið gleður mig smá því ég veit það verður svo ógeðslega góð saga seinna.“ - Kamilla Einarsdóttir
„Að skoða minningar er fyrir mér einskonar skapandi skottufræðimennska. Skoða hvaðan ég kem, hvernig hugmyndir mínar um mig og umhverfi mitt hafa mótað mig, hvernig leikhúsið sem ég set fram um mig sjálfa hefur þróast. Dæmi: A) Ung lesbísk stúlka með full body size plaggat af Luke Perry á hurðinni í herberginu sínu sem vofir yfir henni og öllu sem gerist í herberginu. B) Með tímanum hefur andlit frænku minnar breyst í myndaalbúminu. Þetta þarf að greina. Tafarlaust.“ - Eva Rún Snorradóttir
Alls fóru fram þrjú námskeið, í febrúar, mars og apríl 2023. Hvert námskeið fól í sér fjórar vinnustofur sem fóru fram á þriðjudögum milli klukkan 16:00-19:00 í Grófinni. Í hverju námskeiði voru tíu þátttakendur sem hittust alls fjórum sinnum til að vinna með eigin minningabrot og smíða úr þeim bókverk. Þátttakendum allra vinnustofanna komu saman í opinni vinnustofu laugardaginn 13. maí til að leggja loka hönd á bókverkin sín.
Minningabankinn opnaði 13. maí 2023 þar sem þátttakendur deildu sínum sögum og þróun bókverkana. Sýning Minningabankans stóð yfir í tvær vikur mitt á milli ævisögudeildar bókasafnsins og myndasöguhornsins.
Verkefnið er styrkt af Bókasafnasjóði.
Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka