Glæpafár á Íslandi | Bókakaffi með Stefáni Mána og Unni Lilju
Upplestur og spjall um glæpasögur
Rithöfundarnir Stefán Máni Sigþórsson og Unnur Lilja Aradóttir eru unnendum glæpasagna að góðu kunn. Þau mæta til okkar á bókakaffi, lesa upp og spjalla um bækur sínar.
Bækur Stefáns Mána njóta mikilla vinsælda og hefur ein aðalsögupersónan, lögreglumaðurinn Hörður Grímsson fallið lesendum sérlega vel í geð. Hörður spratt fram á sjónarsviðið í bókinni Hyldýpi 2009. Fyrsta bók Stefáns kom út árið 1996 og var það skáldsagan Dyrnar á Svörtufjöllum og eru bækur hans nú hátt á þriðja tug talsins, nú síðast kom út Borg hinna dauðu (2023).
Stefán Máni fæddist í Reykjavík árið 1970 en ólst upp í Ólafsvík. Þaðan flutti hann rúmlega tvítugur til Reykjavíkur þar sem hann býr nú og starfar. Stefán hefur hlotið Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags í þrígang. Fyrst fyrir Skipið (2007), þá Húsið (2012) og loks fyrir Grimmd (2013). Bækur hans hafa einnig fengið tilnefningar til Blóðdropans, Glerlykilsins og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin Svartur á leik (2012) var kvikmynduð í leikstjórn Óskars Thors Axelssonar. Bækur Stefáns Mána hafa verið þýddar á erlend tungumál.
Unnur Lilja spratt fram á glæpasögusviðið með bók sinni Högginu sem kom út árið 2021. Fyrir hana hlaut hún glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn sem ætluð eru höfundum sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum. Árið 2023 kom svo út önnur spennusaga eftir Unni, bókin Utangarðs.
Glæpasögur Unnar Lilju fjalla um venjulegt fólk sem lendir í erfiðum aðstæðum og ýmis samfélagsmál, s.s. fátækt og klíkuskap sem geta grasserað í litlum samfélögum úti á landi. Unnur Lilja er fædd árið 1981 og býr á Álftanesi. Ásamt því að skrifa starfar hún sem sjúkraliði.
Bókakaffið er hluti af dagskránni Glæpafár á Íslandi sem haldin er í samstarfi við Hið íslenska glæpafélag, sem fagnar 25 ára afmæli í ár.
Öll velkomin og aðgangur er ókeypis.
Verkefnið Glæpafár á Íslandi er styrkt af Bókasafnasjóði.
Nánari upplýsingar veitir:
Katrín Guðmundsdóttir, deildarstjóri
katrin.gudmundsdottir@reykjavik.is | 411 6250