Lesandinn | Ragnheiður Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er lesandi vikunnar en hún er mikil áhugakona um bókmenntir, kvikmyndir og leikrit. Hún er með BA-gráðu í lögfræði en hefur einnig stundað nám í kvikmyndafræði. Hún hefur meistaranám í kynjafræði næsta haust.
„Ég las nýlega bókina My Dark Vanessa eftir Kate Elizabeth Russell sem kom út í ár og ég get hiklaust mælt með henni. Ég hlustaði á bókina á Rafbókasafninu á hljóðbók og var mjög hrifin.
Bókin fjallar um Vanessu Wye, sem fimmtán ára kynnist fimmtugum enskukennara sínum Jacob Strane. Kaflar bókarinnar skiptast á milli sjónarhorns hennar sem unglingsstelpu og sjónarhorns hennar síðar sem 32 ára konu, í kjölfar þess að Strane er ásakaður af fjölda nemenda á hápunkti #Metoo. Lesendur fylgjast með því frá sjónarhorni Vanessu, hvernig Strane nýtir sér einangrun hennar og viðkvæma stöðu, tælir hana og síðar misnotar í langvarandi ,,ástarsambandi” þeirra.
Einn helsti styrkur bókarinnar er hve djúpt við komumst í tæri við hugsanir og sálarlíf Vanessu. Maður nánast upplifir tilfinningalega kúgun Strane á eigin skinni. Skaði Vanessu eftir áralangt ofbeldi og misnotkun fyrirfinnst í nær hverri hugsun hennar, ályktunum og sjálfsmynd.
Sálarangistin sem lýst er í bókinni er kæfandi, sársaukafull og á stundum óbærileg. Hún varpar ljósi á flækjustig kynferðisofbeldis og langvarandi afleiðingar þess. Grófar lýsingar ofbeldis eru líklegar til að kalla fram andlega og líkamlega vanlíðan. Þrátt fyrir að vera erfið lesning mæli ég sterklega með My Dark Vanessa fyrir þá sem telja sig undirbúna til að takast á við hana. Þessi mikilvæga bók er lystilega vel skrifuð og dýpkar skilning á flóknu en aðkallandi málefni.”
My Dark Vanessa er aðgengileg á Rafbókasafninu en allir með virkt bókasafnskort geta nýtt sér þjónustu þess. Bókin er einnig til á hefðbundnu bókarformi á safninu.