Lesandinn | Hildur Loftsdóttir
Hildur Loftsdóttir kennir íslensku sem annað mál í tungumálaskólanum Dósaverksmiðjunni / The Tin Can Factory. Hún sér einnig mánaðarlega um viðburðinn Spilum og spjöllum á Borgarbókasafninu í Grófinni, en hann er ætlaður fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Hildur lærði kvikmyndafræði í Suður-Frakklandi og síðar bókmenntafræði og ritlist við HÍ. Hún starfaði lengi sem blaðamaður og bjó einnig um árabil í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði við menningarstofnunina Scandinavia House í New York. Hildur er barnabókahöfundur og hefur skrifað tvær bækur um systurnar Ástu og Kötu sem ferðast inn í íslenska sagnaheima: Eyðieyjan – urr, öskur, fótur og fit (2019) sem hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin (Storytel Awards) í flokki barna- og ungmennabóka og Hellirinn – blóð, vopn og fussum fei (2020).
Ég er týpan sem þarf helst að hafa nokkrar mismunandi bækur á náttborðinu til að þjóna því skapi sem ég er í þá stundina. Sem barnabókahöfundur finnst mér mjög gaman að lesa barnabækur, en sögulegar skáldsögur, skáldsögur úr reynsluheimi kvenna og velvaldar ljóðabækur rata einnig gjarna inn á náttborð til mín. Ég klára aldrei bækur ef þær ná mér ekki strax, og oftar en ekki hef ég á bakvið eyrað hvort ég geti notað lestrarefnið við kennslu eða í næstu barnabók.
Óður til náttúrunnar með risastórt hjarta
Gríseyjar - ósýnilegt landslag nefnist nýútkomin ljóðabók eftir Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttur. Bókin er númer 24 í Pastel ritröðinni sem Flóra á Akureyri gefur út. Þetta er önnur bók Móheiðar sem sendi frá sér ljóðabókina Flygildi árið 2016. Þessi skemmtilegi titill er sambland af landaheitunum Grænland, Ísland og Færeyjar; aðalyrkisefni Móheiðar. Gríseyjar er lítil og þunn bók með risastórt hjarta. Móheiði er greinilega hlýtt til staðanna sem hún yrkir um, og fyrir mér er bókin óður til náttúrunnar og tengingu mannsins við hana. Skemmtilegar og auðskiljanlegar, oft krúttlegar og skondnar, jafnvel smá rómantískar og örlítið angurværar myndir eru dregnar upp af náttúrufyrirbærum, stemningum, augnablikum, draumum. Ævintýrablærinn svífur yfir vötnum og undirliggjandi er húmorinn, en einnig ógnin sem steðjar að náttúrunni þegar ráðamenn líta í hina áttina. Greta Thunberg myndi fíla þessa bók. Það geri ég og efast ekki um að nemendur mínir munu gera það líka.
Gleymdur menningararfur
Tristram og Ísönd eru aðalpersónur riddarasögunnar sem ég er að lesa núna. Í Hertex á Akureyri fjárfesti ég í ritsafninu Riddarasögur sem Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar og kom út árið 1953. Mér hefur lengi þótt riddarasögur áhugaverðar, ekki síst í ljósi þess að þær eru hluti af okkar menningararfi, en á þær er varla minnst í því samhengi. Riddarasögur urðu til við frönsku hirðina, bárust þaðan til Noregs, þar sem Hákon konungur lét þýða þær á norrænu á 13. öld, og rötuðu síðan í okkar hendur. Sögurnar nutu svo mikilla vinsælda að Íslendingar fóru að semja sínar eigin riddarasögur. Ofannefnd saga er einna frægust og líklega sú fyrsta sem þýdd var, en kann ég þó mun betur að meta þessar íslensku frumsömdu, þar sem engar hömlur eru á ímyndunarafli sagnamanns. Hm … aldrei að vita nema aðalsöguhetjurnar mínar, þær Ásta og Kata, kíki við í riddaraheimum í næstu bók.
Kjarnakonur þá og nú
Íslandsdætur er sérlegt glæsirit, líflega skrifað af Nínu Björk Jónsdóttur og fagurlega myndskreytt af Auði Ýr Elísabetardóttur. Bókin er í léttum dúr, og þótt hún sé skrifuð fyrir börn, hentar hún einnig fullorðnum og ætti að vera til á öllum heimilum. Hér er komin handbókin um margar helstu snilldardætur Íslands sem hafa látið til sín taka á öllum sviðum þjóðlífsins alveg síðan Hallveig Fróðadóttir steig á land árið 870, en með henni í för var eiginmaðurinn Ingólfur Arnarson. Þessum konum hefur lítt verið hampað, eins og tíðkast hefur við mannskynssöguskrif. Nú er kominn tími til að kynnast nokkrum þeirra í fyrsta sinn og kynnast nýjum og áhugaverðum hliðum á þeim sem við þegar þekkjum. Og væri ekki sniðugt að ég leyfði íslenskunemendum mínum að kynnast kjarnakonunni og forsætisráðherranum Katrínu Jakobsdóttur sem nú situr sveitt við að mynda ríkisstjórn? Mér finnst hún eiga það skilið.
Sjá upplýsingar um Spilum og spjöllum . Borgarbókasafnið býður upp á ókeypis samverustundir fyrir þá sem vilja æfa sig að tala íslensku í vinalegu umhverfi. Stundirnar eru reglulega í Grófinni og Spönginni. Leiðbeinendur eru þau Hildur Loftsdóttir og Sigurður Hermannsson, sem hafa bæði mikla reynslu í að kenna íslensku sem annað mál. Næsti viðburður Spilum og spjöllum verður laugardaginn 9. október í Grófinni.